Ólafur Ragnar: Ísland hefur aldrei haft mikilvægari stöðu í heimsmyndinni

olafur ragnar ungt folkForseti Íslands segir að staða Íslands í heiminum hafi aldrei verið mikilvægari en á næstu tveimur áratugum, einkum vegna nýrra siglingaleiða sem gætu opnast í gegnum norðurslóðir. Ýmis tækifæri gætu þar opnast fyrir Austfirðinga enda svæðið vel staðsett gagnvart siglingaleiðinni.

Þetta kom fram í máli Ólafs Ragnars Grímssonar á málþingi í Fjarðabyggð um nýja norðrið – alþjóðavæðingu norðurslóða sem haldið var á Eskifirði á mánudag. Mikil umræða er um Norðurslóðir um þessa mundir en í síðustu viku var forsetinn þátttakandi í 1000 manna norðurslóðaþingi sem haldið var í Hörpu.

Ólafur Ragnar vakti máls á þessum aukna áhuga en hann sagði það „merkilegt“ að í dag hefðu 10 helstu efnahagsveldi að Norðurskautsráðinu með einum eða öðrum hætti.

Ísland í miðjunni á breytingasvæði

„Ísland er komið í miðjuna á þessu mikla breytingasvæði þar sem enginn veit hvernig þróunin mun vera. Ísland er komið í formlega samvinnu við 10 helstu efnahagsveldi heims um málefni norðurslóða,“ sagði forsetinn.

„Ísland hefur aldrei haft mikilvægari stöðu í heimsmyndinni en mun verða á næstu árum og áratugum.

Ekkert stærra hagsmunamál til heldur en að ræða það hvernig við getum brugðist við þessari þróun og byggt okkur upp í tengslum við alla þá möguleika sem í þessu felast. Stærðargráðan er allt annarrar tegundar en við erum vön,“ sagði Ólafur Ragnar og bætti við að Austfirðir lægju betur við í þessu tilfelli heldur en mörg önnur landssvæði.

Indverjar hafi sent hingað ráðherra nýverið, varaforsætisráðherra Kína komi í næstu viku, Vladimir Pútin Rússlandsforseti fylgist náið með þróun á Norðurslóðum, í Alaska vilji menn efla samstarfið við Ísland og Grænland og málefni norðursins séu áberandi í viðræðum við ráðmenn helstu Evrópuríkja.

Siglingaleiðin styttist um tæpar tvær vikur

Ástæðan er áframhaldandi bráðnun íss á norðurslóðum. Afleiðingar þess verður hækkun sjávar með alvarlegum áhrifum á fólk víða um heim en einnig opnun nýrra siglingaleiða sem gætu gerbreytt vöruflutningum og aðgangur að hreinni orku.

„Við munum á næstu árum sjá nýtt haf verða til. Það er að opnast nýtt og risastórt haf sem ekki hefur áður verið sýnilegt mannlegum augum,“ sagði forsetinn.

Á ráðstefnuna í Hörpu mætti meðal annarra forstjóri Cosco Group, stærsta skipafélags Kína, en fyrirtækið sendi í sumar skip frá Dalian í Kína til Rotterdam í Hollandi. Ferðin í gegnum Miðjarðarhafið tekur vanalega 48 daga en skipið frá Cosco var aðeins 35 daga á leiðinni.

„Þó norðurleiðin opnaðist aðeins 2-3 mánuði á ári yrði það verulegur hluti af heimsviðskiptunum,“ sagði Ólafur.

Höfum byggt upp samfélag tæknikunnáttu og fagmanna

En það breytist fleira en skipaleiðir. Fiskistofnar gætu breytt gönguleiðum sínum. Sumir stofnar gætu fært sig enn norðar í kaldari sjó á meðan aðrir, eins og makríllinn, færast inn á fiskimið Íslendinga.

„Hér hefur verið byggt upp samfélag tæknikunnáttu og fagmanna. Hér hafa menn byggt upp hafnir og þekkja sjávarútveg. Hér hafa menn stundað rannsóknir á hafinu og ísnum. Hér er samfélag sem þó það sé fámennt á heimsvísu getur tekið virkan þátt í þessari þróun á norðurslóðum. Við höfum þessa getu nú þegar.“

Sjálfstæði Grænlands gæti gjörbreytt stöðu Íslands

Ólafur Ragnar ræddi einnig þróun mála í Grænlandi og hvatti til aukinnar samvinnu við heimamenn. Þeir hafa öðlast aukna sjálfsstjórn en forsetanum virðist sem þeir hafi sett stefnuna á sjálfstæði.

„Það mun gjörbreyta stöðu Íslands. Í nágrenni við okkur verður til sjálfstætt ríki með gríðarlegar auðlindir. Við eigum að taka höndum saman við Grænlendinga um að takast á við þetta verkefni.“

Ólafur benti á að mörg stórveldi hefðu sett stefnuna á að auka hlutdeild sína í hreinni orku. „Norðurslóðir eru líkast til stærsta forðabúr hreinnar orku sem völ er á. Grænland hefur mikla möguleika á þessu sviði. Menn tala oft aðeins um olíu og gas og námavinnslu en hrein orka er líka gífurleg auðlind.“

Stendur á okkur en ekki fjárfestum

Hann vísaði þar meðal annars til umræðu um lagningu raforkustrengs frá Íslandi til meginlands Evrópu. Ólafur Ragnar fullyrti að nóg væri af erlendum fjárfestum sem væru reiðubúnir að borga fyrir strenginn.

„Áhuginn er mjög mikill þegar horft er fram á veginn. Flestir þessara aðila hugsa í áratugum. Það stendur á okkur en ekki fjárfestunum. Við megum ekki festast í því að það séu vandamál hér heima. Við verðum hins vegar að gera það upp við okkur hvað við viljum.

Með allri virðingu fyrir sveitarstjórnarmönnum, er kominn tími til að stjórnvöld fari að taka ákvarðanir og móta sína stefnu um hvað menn vilja svo þessir erlendu aðilar geti rætt við landsstjórnina en ekki bara sveitarstjórnir.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.