Embla Eir: Siglingar á norðurslóðum eru ekki hættulausar

embla eir oddsdottir nordurslodirEmbla Eir Oddsdóttir, forstöðumaður Norðurslóðanets Íslands, varar menn við of mikill bjartsýni í tengslum við hugsanlegar siglingar fragtskipa um norðurslóðir. Þeim fylgir áhætta, bæði viðskiptalega og umhverfislega. Þá sé mikilvægt að gleyma ekki öðrum tækifærum á meðan beðið sé eftir að þær verði að veruleika.

Þetta kom fram í máli Emblu á málþingi um alþjóðavæðingu á norðurslóðum sem haldið var á Eskifirði á mánudag í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Fjarðabyggðar.

Útlit er fyrir að skipaumferð kunni að aukast um norðurslóðir á næstu árum og áratugum þegar siglingaleiðir um norðurslóðir opnast við hlýnun jarðar. Eins eru uppi áform um olíuleit á Drekasvæðinu. Skemmtiferðaskip gætu einnig smeygt sér um svæðið.

Austfirðir liggja vel við þessari siglingaleið en Embla minnti á að Íslendingar yrðu að huga að því hvernig uppbygging þjónustunnar nýttist þannig að hún væri sem hagkvæmust fyrir land og þjóð í heild.

Hún sagði að atvinnumöguleikarnir yrðu að vera í beinu samhengi við þá menntun og þekkingu til staðar séu. Uppbyggingin gæti endað annars staðar ef þekkingin sem þarf er ekki til staðar.

Getum ekki horft framhjá því að slys gerast

En tækifærunum fylgir líka áhætta. Embla Eir minnti á að aðstæður á svæðinu séu erfiðar, myrkvað og miklar fjarlægðir. Eftirlits- og upplýsingakerfi séu ófullkomin þótt það standi til bóta.

„Siglingar á norðurslóðum ekki hættulausar,“ sagði hún. „Mengun eykst með aukinni skipaumferð. Við vitum það.“

Hún rifjaði meðal annars upp Exxon Valdes-slysið frá árinu 1989 þegar samnefnt olíuskip strandaði úti fyrir ströndum Alaska. Allt að 750.000 rúmmetrar af olíu láku út í umhverfið og stórsköðuðu lífríkið, meðal annars fiskimið, með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag svæðisins.

„Hætta á olíuslysum mun aukast. Við getum ekki horft framhjá því að slys gerast. Lítil hætta á óhappi er ekki sama og engin hætta. Besta fáanlega tækni er jú bara það, besta fáanlega tæknin. Hún er ekki fullkomin.“

Gleymum ekki öðrum tækifærum

Íslendingar væru í miklum vandræðum ef olíuskip af þeirri stærðargráðu strandaði við landið því enginn búnaður er til staðar sem ræður við slíkt slys í dag. Unnið er að úrbótum og að tryggja samstarf við önnur ríki.

„Ef samfélag er sterkt, hefur sterka innviði og hefur undirbúið sig þá getur slys verið viðráðanlegt fyrirbæri. Ef ekki getur slys orðið eitthvað mikið stærra og verra en það.“

Hún minnti menn á að siglingarfragtskipa og olíuvinnsla eru enn fjarlægar hugmyndir. „Við erum að tala um skipaflutninga í framtíðinni, það er ekki í dag og á morgun.“

Hún hvatti menn því til að gleyma ekki öðrum tækifærum. „Skoðum tækifærin en verum meðvituð um áhætturnar. Tökum umræðuna yfirvegað og metum þetta saman.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.