Menningarsamningur á Austurlandi skarar fram úr: Austurland er þroskaðasta svæðið
Menningarsamningur Austurlands er sá menningarsamningur landshluta sem mestum árangri skilar. Samningurinn hér er elstur og kemur það Austfirðingum til góða. Austurland fær samt talsvert minna fé til menningarmála frá ríkinu heldur en aðrir landshlutar.Þetta kemur fram í úttekt sem Capacent gerði á framkvæmd menningarsamninga árin 2011-2013 fyrir Mennta- og menningarráðuneytið og birt var í vikunni.
Austurland kom þar best út, fékk 93 stig af 100 mögulegum í heildarskori. Töluverður árangur hefur einnig náðst á Norðurlandi eystra og Suðurlandi. „Að mati ráðgjafa er Austurland það svæði sem skarar fram úr á þessu sviði,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.
Þróunin komin lengst
Austfirsk sveitarfélög voru fyrst til að gera menningarsamning við ríkið en slíkur samningur hefur verið í gangi frá árinu 2001. Það er talið skipta miklu fyrir árangurinn. Tengsl menningarfulltrúa við grasrótina og samfélagið eru sömuleiðis talin hvað sterkust eystra.
„Austurland er þroskaðasta svæðið og hefur náð lengst í að þróa og útfæra sín verkefni. Grasrótin og umsækjendur hafa þar með margra ára reynslu af gerð umsókna og kröfur til þeirra aukast ár frá ári sökum samkeppni um takmarkað fjármagn. Hvatinn til að koma og búa til ný og áhugaverð verkefni er því virkur.“
Styrkþegar á Austurlandi voru síst sammála fullyrðingunni um að menningarsamningurinn hafi orðið til að efla samstarf aðila á sínu svæði. Í áliti Menningarráðs Austurlands kemur hins vegar fram að eitt af séreinkennum Austurlands sé aukið samstarf.
Ráðið vísar meðal annars til þátttöku í málþingum, þeirra þriggja menningarmiðstöðva sem séu starfandi á svæðinu og aukins samtals á milli sveitarstjórnarmanna, embættismanna og listamanna.
Árangur í alþjóðlegu samstarfi
Athygli er vakin á að Austfirðingar hafa náð „umtalsverðum árangri“ í erlendu samstarfi, til dæmis við Vesterålen í Noregi og Donegal á Írlandi en einnig með verkefnum eins og Make by Þorpið og Creative Communties. Fleiri en Austfirðingar hafa notið góðs af þessu samstarfi.
„Þessi verkefni og fleiri væru ekki vinnanleg nema vegna þess að í mörg ár hafa stoðstofnanir á Austurlandi unnið saman að slíkum verkefnum, í mikilli samvinnu og samtali við fyrirtæki og listamenn.“
Áhersla á atvinnusköpun
Á Austurlandi hefur verið lögð áhersla á að nýta menningarstyrkina til að skapa atvinnu. Lítið fjármagn fer í stjórnunarkostnað sem leiðir til töluverðs álags á menningarfulltrúa. Litið er svo á að það sé annarra, svo sem sveitarfélaga og fyrirtækja, að styðja við áhugafélög eins og staðbundin leikfélög og kóra.
Í úttektinni er sérstaklega tekið eftir öflugum stuðningi fyrirtækja á svæðinu, til dæmis Eskju, við menningarstarfið. „Stórfyrirtæki á Austurlandi hafa komið að uppbyggingu á sviði menningar og lista meira en sést hefur á öðrum svæðum á yfirstandandi samningstímabili.“
Fáum minna fé en aðrir
Í fyrra var 82,6 milljónum króna úthlutað í gegnum menningarsamninginn til Austurlands. Þrátt fyrir að þetta sé hæsta upphæðin sem fer í gegnum slíkan samning fær Austurland samt „umtalsvert lægra fjármagn en aðrir landshlutar til menningar frá ríkisvaldinu.“
Bent er á að samninga þurfi að gera til lengri tíma og opna á stuðning við langtímaverkefni í stað þess að menn séu kosta til vinnu við að skrifa og fara yfir umsóknir á hverju ári. Menningarráðið telur „bagalegt“ að stofn- og rekstrarstyrkir hafi verið skornir niður á sama tíma og úthlutun þeirra var færð frá ríki til heimabyggðar.
Slíkur niðurskurður hefur komið sérstaklega niður á menningarmiðstöðvunum þremur. Þær átta milljónir sem þær fá á ári í rekstrarstyrki duga „tæplega“ til að þær geti sinnt sínu hlutverki. Þeim hefur gengið vel að afla viðbótarfjár en það er ekki tryggt nema frá ári til árs.
Viljum fá fólkið heim
Menningarsamningurinn virðist bera þann árangur eystra að stærra hlutfall menntaðra listamanna er héðan en áður. Bent er á að þróa þurfi umhverfi þannig að unga fólkið sem hafi menntað sig vilji snúa heim aftur. Vísbendingar eru reyndar á lofti að þróunin sé í þá átt.
Meginmarkmið úttektarinnar var að kanna hvort menningarsamningarnir hefðu stuðlað að því að efla samstarf á sviði menningarmála á viðkomandi svæði, hvort þeir hefðu eflt nýsköpun og fjölbreytni í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu, hvort menningarstarf styðji við ferðaþjónustu, fjölgað atvinnutækifærum á sviði menningar og lista og hvort samningsaðilar, ríki og sveitarfélög verðu meira fé en áður til menningarmála.