Þingmaður Reykjavíkur heimsótti Austurland í kjördæmaviku

piratar hugvangur 0009 webVenjan er sú að í kjördæmavikum Alþingis fari þingmenn heim í sín kjördæmi, ferðist um, hitti fólk og taki púlsinn á stöðunni. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, fór þó öfuga leið og heimsótti Austurland.

„Þingmaðurinn er bara í Reykjavík því þetta er kjördæmaskipt land. Annars buðum við fram fyrir alla landsmenn,“ segir Helgi Hrafn.

„Ástæðan fyrir að við komum hingað er að hitta hugbúnaðargerðarbatteríið sem er hér í gangi,“ bætir hann við. Helgi kom austur ásamt Aðalheiði Ámundadóttur, framkvæmdastjóra þingflokks Pírata sem leiddi listann í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum.

Þau heimsóttu Hugvang á Egilsstöðum og fengu þar kynningu á hugbúnaðarfyrirtækjunum AX North, AN Lausnum, Austurneti og Rational Network sem eru þar auk auglýsingastofunnar Augasteina og Austurfréttar.

„Þetta er ofboðslega áhugavert, svo ekki sé meira sagt. Þetta er lifandi dæmi um hvað hægt er að gera með netinu í dag þótt menn séu nánast eins langt frá Reykjavík og hugsast getur.“

Ef hægt er að gera þetta hér þá er þetta hægt víðar

Helgi Hrafn, sem starfaði sem forritari áður en hann settist á þing, segir samfélagið í Hugvangi dæmi um atvinnustarfsemi sem byggja megi upp á landsbyggðinni.

„Eftir heimsóknina er ég mun fróðari um hvernig hægt er að setja upp hugbúnaðargerð úti á landi með tiltölulega lítilli áhættu og án þess að skuldsetja sig upp fyrir haus, nema kannski rétt í byrjun. Hér er eitthvað til að læra af. Það að þetta skuli virka hér gefur manni von um að hægt sé að gera þetta annars staðar.“

Helgi segist hafa kynnst því í vor hversu misjafn aðgangur landsmanna að netþjónustu er. „Eitt af því sem við pælum mikið í er staða netsins sem undirstöðuþáttur í samgöngum.

Ég frétti fyrst af því í kosningabaráttunni að netsamband væri vandamál víða um land. Ég átti ekki von á því enda tekur maður því sem sjálfsögðum hlut að geta komist í almennilegt net hvar sem er í Reykjavík.“

Helgi er einn af þeim þingmönnum sem tóku sæti eftir kosningarnar í apríl. Hann segir mikið vinnuálag í nýja starfinu. „Það er erfitt að lýsa þessu starfi. Það er eiginlega ekki líkt neinu öðru. Það er hlátur og grátur í þessu starfi og allt þar á milli. Stundum vinnur maður litla sigra en þess á milli verður maður að taka ósigrunum.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.