Auðlindin Austurland: Atvinnumálaráðstefna í nóvember
Dagana 5. – 6. nóvember nk. stendur Austurbrú fyrir atvinnumálaráðstefnu undir yfirskriftinni „Auðlindin Austurland“ á Hóteli Hallormsstað. Boðið verður upp á fjölda fyrirlestra, málstofa og tengslatorg. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra mun setja ráðstefnuna en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun einnig flytja erindi um tækifæri á Norðurslóðum.Samgöngumál til framtíðar, ósnert víðerni, umskipunarhöfn í Finnafirði, hæglæti sem lífsmáti, þjónusta við olíuleit, álhönnun, listalýðháskóli, hátækni í fiskiðnaði, sjálfbærni, staðbundin menning, háskólarannsóknir og fleira. Þessi umfjöllunarefni og mörg fleiri verða í brenndepli á atvinnuráðstefnu sem Austurbrú stendur fyrir í byrjun nóvember. Horft verður til framtíðar og farið yfir þau gríðarlegu tækifæri sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða.
Austurland hefur alla burði til að vera í fararbroddi á komandi árum sem umhverfisvænt og sjálfbært landssvæði með fjölbreyttum atvinnumöguleikum og miklum lífsgæðum.
Verðmætasköpun á Austurlandi hefur vaxið meira en á flestum öðrum landssvæðum á undanförnum árum. Austurland er með hæsta hlutfall íbúa á aldrinum 18-66 ára eða 65,5% sem er það sama og á höfuðborgarsvæðinu.
Íbúar svæðisins eru því fremur ungir og eru flestir á vinnualdri sem gerir það að verkum að mögulegir skattgreiðendur eru tiltölulega margir. Atvinnuleysi á Austursvæði er talsvert undir landsmeðaltali og einungis lægra á Vestfjörðum og Norðvestursvæði.
Fyrirlesarar munu fara vítt og breitt í umræðu um „Auðlindina Austurland“ en einnig verður boðið upp á vinnustofur í tengslum við ráðstefnuna þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt í gagnlegum námskeiðum og vinnuhópum.
Á vefnum traveleast.is má skoða dagskrá ráðstefnunnar auk upplýsinga um vinnustofur sem fram fara 4. og 7. nóvember.