Norskur arkitekt sigraði í hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu ferðafólks í Stórurð
Norski arkitektinn Erik Rönning Andersen bar sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla. Hann segir útlínur fjallgarðsins hafa veitt honum innblástur við hönnunina.„Hugmyndin var að nota útlínur fjallgarðsins sem sniðmát að öllum mannvirkjum,“ sagði Erik er hann ávarpaði gesti við afhendingu verðlaunanna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á mánudag. Þakkarræðuna flutti hann á íslensku en hann sagðist hafa komið oft til Íslands undanfarin sautján ár.
„Þessar útlínur voru það fyrsta sem ég sá þegar ég skoðaði gögnin fyrir keppnina. Þær eru mjög einkennandi fyrir svæðið.“
Markmiðið keppninnar var að fá fram hugmyndir að lausnum og mannvirkjum til að styrkja staðarímynd Dyrfjalla og Stórurðar sem ferðamannastaðar, varðveita huglægt gildi náttúru og lítt snortins víðernis, þrátt fyrir vaxandi umferð ferðamanna, bæta aðgengi göngufólks að svæðinu Dyrfjöll – Stórurð, merkja svæðið vel með vegvísum, gönguleiðarmerkjum og upplýsingatöflum og stuðla að góðri umgengni sem hlífir viðkvæmri náttúru, m.a. með uppbyggingu eins eða fleiri áningarstaða með upplýsingum og snyrtingu.
Í niðurstöðu dómnefndar um verðlaunatillöguna segir að tillagan sýni sannfærandi formhugmynd sem er gegnum gangandi bæði í útliti bygginga og annarra mannvirkja. Hugmyndin sé frumleg og skírskoti til Dyranna í Dyrfjöllum og yrði auðþekkt kennimark þó það væri nýtt annars staðar. Höfundar yrðu þó að huga að því að endurskoða efnisval og aðlaga það að harðri veðráttu á svæðinu. Hugmynd að merkingu einstakra gönguleiða sé skýr með einföldu formi.
Öll hönnun Eriks byggir á að líkja eftir fjallalínunni með hinum einkennandi dyrum. „Ég vil færa hana alveg niður þangað sem ferðin byrjar til að láta fólk vita að það sé komið á Dyrfjallasvæði,“ sagði Erik á mánudaginn er hann tók við verðlaununum, einni milljón íslenskra rkóna.
Hann segir að í Noregi hafi Vegagerðin efnt til keppna meðal ungra arkitekta um hönnun við áningarstaði ferðamanna með góðum árangri. „Nú fer fólk í bíltúr bara til þess að skoða arkitektúr.“
Það voru sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur í samstarfi við Arkitektafélag Íslands sem stóðu fyrir keppninni með stuðningi úr framkvæmdasjóði ferðamanna. Næsta skref er að meta hvort menn vilji ráðast í framkvæmdir á svæðinu og fjármagna þær.