Bjarga fólki frekar en farartækjum: Björgunarsveitir geta ekki dregið bíla á hverjum degi

rutubjorgun 09102013 nikkibraga 2 webAustfirskar björgunarsveitir hyggjast leggja áherslu á að bjarga fólki frekar en farartækjum þegar þær eru kallaðar út til aðstoðar ferðalöngum í erfiðri færð. Tíðni útkalla er orðin slík að sveitirnar hafa vart lengur bolmagn til að svara þeim auk þess sem þær eru illa tryggðar fyrir tjóni sem orðið getur við björgun fararækja.

„Þetta er farið að sliga björgunarsveitirnar," segir Guðjón Már Jónsson, formaður svæðisráðs björgunarsveitanna á Austurlandi.

Hann sat nýverið fund með Vegagerðinni og lögreglunni þar sem farið var yfir stöðu mála. Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna víða um land eru komnir að þolmörkum. „Menn gefa sig ekki út í þetta lengur. Menn þurfa að sinna vinnu og fjölskyldu."

Gagnrýni björgunarsveitarfólks snýst meðal annars um að það sé kallað út þegar engin þörf sé á því. Ferðafólk hringir í Neyðarlínuna sem gerir lögreglunni viðvart. Það er hún sem metur hvort kalla eigi út björgunarsveit eða ekki. „Við teljum að við sé oft kallaðir út í tilfellum þar sem okkar er ekki þörf."

Við bætist að dæmi eru um að björgunarsveitir sitji uppi með tjón sem verður á bílum sem verið er að draga upp.

„Við erum ekki áfjáðir að draga upp bíla. Við björgum fólki sem lendir í vandræðum en við björgum ekki bílum. Við erum ekki sérstaklega tryggðir fyrir tjóni sem verður við slíkar aðstæður."

Sá sem dregur ber tjónið samkvæmt lögum. Tjón á bíl sem björgunarsveit dregið er bætt af kaskótryggingu viðkomandi sveitar og sjálfsábyrgðin þá dregin frá en tjón á bíl sveitarinnar er ekki bætt.

Guðjón hvetur ökumenn til að kynna sér betur aðstæður á vegum áður en þeir leggi af stað. „Það er of mikið um að fólk æði af stað og treysti svo á að vera bjargað.

Fólk verður að spyrja sig hvort ferðin sé svo nauðsynlegt að hún geti ekki beðið þar til veðrið lagist. Það hefur aldrei komið svo slæmt veður að það hafi ekki lagast á endanum."

Guðjón ítrekar þó að fólk eigi aldrei að veigra sér við að hringja í Neyðarlínuna telji það sig vera í hættu. Endanleg ákvörðun um hvort fólkinu sé bara bjargað eða því fylgt til byggða sé tekin þegar menn komi á staðinn.

„Við erum tilbúnir að nóttu sem degi til að aðstoða fólk sem telur sig vera í hættu og þá spyrjum við ekki að því hvort við séum tryggðir eða ekki."

Mynd: Nikulás Bragason

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.