98 oktana bensín fáanlegt á N1 Egilsstöðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. júl 2023 14:19 • Uppfært 31. júl 2023 14:19
N1 á Egilsstöðum hefur hafið sölu á 98 oktana bensíni. Um er að ræða einu stöðina á Austurlandi sem selur 98 oktana bensín.
Samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins hefur eftirspurn eftir 98 oktana bensíni aukist eftir að íslenskir eldsneytissalar skiptu úr bensíni 95 E5 yfir í nýtt staðlað bensín 95 E10.
Allt 95 oktana bensín á Íslandi er með allt að 10% etanól íblöndun en á að minnka losun koltvísýrings. Allir bensínknúnir bílar af árgerðum 2011 og yngri geta nýtt nýja E10 eldsneytið sem og flestar eldri tegundir bíla, en á því eru þó einhverjar undantekningar.
Eldsneytissalarnir hafa vísað bíleigendum á umboð bílanna um hvort þeir geti nýtt E10 bensínið. En þetta snýst ekki bara um bílana heldur hefur eigendum mótorhjóla, utanborðsmótora, sláttuvéla, sláttuorfa og slíkra tækja verið bent á að kynna sér vel hvaða tegund eldsneytis þeim sé óhætt að nota. Þar sem E10 gengur ekki á 98 oktana bensínið að koma í staðinn.
„Við hjá N1 erum afar ánægð að geta boðið viskiptavinum okkar upp á 98 oktana bensín á Austfjörðum enda er svæðið stórt og afar mikilvægt markaðssvæði fyrir okkur. Á svæðinu eru margir af okkar stærri viðskiptavinum og þá, auk allra íbúa og gesta Austurlands, viljum við þjónusta eins vel og mögulegt er,“ segir Ýmir Örn Finnbogason nýráðinn framkvæmdastjóri N1.
Þórlaug Alda Gunnarsdóttir, stöðvarstjóri N1 á Egilsstöðum, segist afar ánægð að geta boðið upp á þessa tegund eldsneytis á þjónustustöðinni og aukið þannig þjónustuna við sína viðskiptavini. Undir það tekur Guðmundur Frímann Þorsteinsson, verslunarstjóri N1 á Reyðarfirði en Guðmundur segir að fyrirspurnum um mögulega sölu á eldsneytistegundinni hafa aukist verulega eftir að etanólíblöndunin í 95 oktana bensíninu hafi verið aukin.
„Fólk er greinilega umhugað um tækin sín og hafa kynnt sér hvaða eldsneyti henti best og er það vel. Við erum einnig að hefja sölu á íblöndunarefnum til að nota með 95 oktana bensíninu og eru allir velkomnir til okkar eða upp á Hérað til að kynna sér hvernig nota skal það efni,“ er einnig haft eftir Guðmundi í tilkynningunni.
Samkvæmt svari N1 við fyrirspurn Austurfréttar þá verður skoðað að bæta við 98 oktana bensíni á fleiri stöðvar ef eftirspurn þykir næg. Fyrirtækið er einnig með 98 oktana eldsneyti á nokkrum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og á Akureyri.