Vilja endurskoða lög um byggingarmál út af myglusveppi: Verra en að missa húsið sitt í bruna?
Þrettán Alþingismenn standa á bakvið þingsályktunartillögu sem nýverið var lögð fram um að umhverfis- og auðlindaráðherra skipi starfshóp sem taki til heildstæðrar endurskoðunar lög og reglur um byggingarmál með tilliti til myglusveppa og þess tjóns sem þeir geta valdið. Ályktunin er lögð fram sérstaklega í ljósi þeirra mála sem upp hafa komið á Austurlandi. Ábyrgðin hefur til þessa verið óljós en myglusveppur getur valdið fólki jafnt heilsufars- sem fjárhagslegum skaða.Starfshópnum er ætlað að skoða með heildstæðum hætti alla þá þætti sem viðkoma rakaskemmdum og myglusveppum hvort sem er í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Fara á yfir tryggingamál og skerpa á ábyrgð húsbyggjenda, hönnuða, leigusala, tjónamats, umsjónarmanna og eftirliti með hollustuháttum húsnæðis svo eitthvað sé nefnt.
Þá er heilbrigðisyfirvöldum einnig ætlað að meta hvort gefa eigi út leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna um hvernig taka skuli á heilsubresti sem tengist myglusveppi.
Verra en að lenda í bruna?
„Sumir sem í þessu hafa lent lýsa þannig með orðum að þetta sé verra en að lenda í bruna,“ sagði Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu, við umræður um málið á þingi.
„Ef þú lendir í bruna vitum við að það er einhver sem bætir tjónið, en það er enginn sem kemur til hjálpar í þessu tilviki og við þær aðstæður verður samfélagið með einhverjum hætti að gera það.“
Óttar Proppé, Bjartri framtíð, benti á að í Noregi starfaði sérstakur sjóður sem ætlað væri að bæta tjón af völdum myglusvepps.
Yfir 100 fjölskyldur þurft að yfirgefa hús sín
Þingsályktunartillagan er lögð sérstaklega fram í ljósi ástandsins á Austurlandi en viðgerðir standa nú yfir á hátt í 50 húsum á Egilsstöðum og Reyðarfirði sem myglusveppur hefur herjað á. Hönnuðir, byggingaraðilar, tryggingafyrirtæki og aðrir sem að byggingunum komu í upphafi deildu með sér tjóninu þannig að eigendur húsanna eiga ekki að bera fjárhagslegt tjón af viðgerðunum.
En heilsufarstjón og önnur óþægindi fást seint bætt. Við bætist að vandamálið er ekki einskorðað við þessi hús.
Í greinargerð með ályktuninni segir að um 100 fjölskyldur hafi hér á landi þurft að yfirgefa hús sín til lengri eða skemmri tíma á undanförnum árum vegna heilsufarsáhrifa og annars tjóns af völdum myglusveppa. Tugir þeirra hafa ekki snúið aftur í fyrra húsnæði.
Vonir um raunveruleg úrræði
Fá úrræði hafi til þessa virst standa til boða en vonir standi til að vinna starfshópsins veiti íbúum og eigendum íbúðarhúsa „raunveruleg úrræði sem hægt er að ræða sig á þegar“ myglan fer á kreik.
Það var Jónína Rós Guðmundsdóttir sem upphaflega talaði fyrir málinu á síðasta þingi en það komst ekki á dagskrá þá. Flokksbróðir hennar úr Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi, Kristján L. Möller, er fyrsti flutningsmaður að ályktuninni nú.
Tólf aðrir flutningsmenn eru að frumvarpinu úr öllum þingflokkum annarra en Pírata. Birgitta Jónsdóttir kom þó upp við fyrstu umræðu og lýsti yfir stuðningi sínum við framgöngu þess.
Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum og tillögum að úrbótum fyrir 1. júlí 2014.