Rannsókn á eldsupptökum í Berufirði langt komin: Ég á fjölskylduna mína ennþá
Rannsókn á upptökum elds í íbúðarhúsinu Hamraborg í Berufirði í fyrrinótt er vel á veg komin. Sjö manna fjölskylda á tveimur vegfarendum mikið að launa en þeir vöktu fjölskylduna og björguðu henni út úr reykfylltu húsinu.„Ég á fjölskylduna mína enn þá. Ég get ekki beðið um meira," sagði fjölskyldufaðirinn Jón Vigfússon í samtali við RÚV í gær.
Tveir sjómenn á leið heim á Höfn frá Breiðdalsvík óku framhjá húsinu í fyrrinótt og sáu þá eld í hlið hússins. Þeir fóru inn í húsið, vöktu þar sjö manna fjölskyldu í fastasvefni, komu henni út og hjálpuðu til við að slökkva eldinn.
Neðri hæð hússins var full af reyk en reykskynjarar höfðu ekki farið í gang.
Hjá lögreglunni á Eskifirði, sem rannsakar málið, fengust þær upplýsingar í morgun að rannsókn málsins væri langt komin. Eldsupptökin hafi verið við reykrök frá kamínunni, þar sem það fer um útvegg. Kamínan var í notkun og allt bendir til þess að hiti frá rörinu hafi orsakað að eldur varð laus í klæðningu hússins.
Úr Berufirði. Mynd: Guðný Gréta Eyþórsdóttir