Skip to main content

Norræna til Fjarðabyggðar? Fjarðarheiðin er þröskuldur í þróun vetrarferða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. nóv 2013 15:54Uppfært 06. nóv 2013 22:56

norronaForráðamenn Smyril-Line, sem heldur út farþegaferjunni Norrænu, hafa óskað eftir viðræður við bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð um að taka á móti ferjunni í framtíðinni. Vegurinn yfir Fjarðarheiði þykir hamla vetrarþjónustu fyrirtækisins.


Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn Smyril Line sendi Fjarðabyggðarhöfnum fyrir helgi og var tekið fyrir á fundi hafnarstjórnar í gær. Heimahöfn skipsins hefur verið á Seyðisfirði síðan það hóf siglingar til Íslands.

Í bréfinu, sem undirritað er af stjórnarmanninum Lindu B. Gunnlaugsdóttur, er rakið að fyrir tíu árum hafi verið ákveðið að þjónusta Ísland með reglulegum siglingum allt árið.

Fragtflutningar hafi verið aðaláherslan í vetrarsiglingum ferjunnar en aukinn þrýstingur sé á að selja einnig ferðir til ferðafólks yfir vetrartímann.

„Það er ekkert launungarmál að Fjarðarheiðin er þröskuldur í áframhaldandi þróun ferða yfir vetrartímann auk þess veldur sá vegur einnig vandræðum í vöruflutningum.“

Þess vegna hafi fyrirtækið ákveðið að skoða aðra kosti á Austurlandi fyrir Norrænu og þar séu Fjarðabyggðarhafnir efstar á blaði.

Fram kemur að samtöl hafi átt sér stað á milli Lindu og starfandi formanns hafnarnefndar, Sævars Guðjónssonar. Hið formlega erindi sé framhald af þeim. Fyrirtækið lýsir yfir áhuga sínum á að viðræður geti hafist sem fyrst.

Á fundinum í gær var hafnarstjóra og formanni hafnarnefndar að ræða við fyrirtækið.