Skip to main content

Jens Garðar: Erindi Smyril Line kom okkur virkilega á óvart

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. nóv 2013 17:02Uppfært 06. nóv 2013 17:04

jens gardar helgason mai12Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, segir ósk Smyril Line um viðræður um að Fjarðabyggðarhafnir verði áfangastaður ferjunnar Norrænu í framtíðinni hafa komið virkilega á óvart. Engin áform hafi verið uppi um að byggja upp ferjuhöfn í sveitarfélaginu.


„Þetta bréf barst hafnarstjórn Fjarðabyggðar og kom okkur virkilega á óvart," sagði Jens Garðar í samtali við Austurfrétt í dag.

Jens segir fulltrúa fyrirtækisins fyrst hafa hringt og spurst fyrir um í hvaða ferli svona mál færu og þeim verið bent á að senda inn erindi.

„Þeir óska eftir viðræðum og við verðum að svara bréfum sem koma til okkar. Það er óskað eftir fundi og við verðum við því.

Við munum hlusta á hvað þeir eru að hugsa með framhaldið. Við vitum ekkert meir."

Á fundi hafnarstjórnar í gær, þar sem erindið var tekið fyrir, var samþykkt að hafnarstjóri og formaður hafnarnefndar sætu fund með forráðamönnum Smyril Line. Bæjarstjórinn verður þar einnig og mögulega Jens Garðar.

Aðstaða fyrir bíla- og farþegaflutningaferju eins og Norrænu er ekki til staðar í Fjarðabyggð í dag og Jens Garðar segir það aldrei hafa verið stefnu sveitarfélagsins að byggja upp þá aðstöðu sem til þarf.

„Fjarðabyggð hefur eins og önnur sveitarfélög á Austurlandi alltaf litið á Seyðisfjörð sem heimahöfn Norrænu.

Við höfum tekið við skemmtiferðaskipum á Eskifirði og það hefur verið vitað í sex ár að það væri stefna Fjarðabyggðar að taka þátt í að stækka skemmtiferðaskipakökuna á Austurlandi.

Ferjuhöfn hefur aldrei verið á teikniborðinu og við höfum ekki sóst eftir viðræðum um Norrænu. Þetta er ekki að okkar frumkvæði."