Skip to main content

Á að vera hægt að verja byggðina á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2022 19:31Uppfært 06. apr 2022 19:34

Seyðisfjörður, þar með talin efsta gatan Botnahlíð, ætti allur að færast af hættusvæði C með bættum ofanflóðavörnum. Undirbúningur framkvæmda tekur þrjú ár ef vel gengur.


Þetta kom fram á íbúafundi í kvöld þar sem frumathugun á ofanflóðavörnum fyrir svæðið milli Dagmálalækjar og Búðarár, sem sagt byggðina í sunnanverðum firðinum, var kynnt.

Samkvæmt núgildandi hættumat er hluti Botnahlíðar inn á hættusvæði C, sem metið er mesta hættusvæðið. Með vörnunum verður ekkert hús inni á hættusvæði C, hvorki í Botnahlíð né Þórshamar, yst á svæðinu. Til þessa hefur stór hluti Austurvegar, Botnahlíðar, Fossgötu og hluti Múlavegar verið inn á hættusvæðinu.

Varnirnar ganga út á að þeir garðar sem fyrir eru verði efldir, lengdir, hækkaðir eða styrktir á annan hátt við að taka við stærri skriðum. Við útreikningana voru gerðar prófanir í líkönum með allt að 60.000 rúmmetra skriðum. Segja má að eftir framkvæmdir fylgi C línan varnargörðunum. Lína B-svæðis er skammt frá. Þetta þýðir að með vörnum yrði nær öll byggðin á A-svæði, minnstu hættunni.

Fleiri varnir þarf en garðana til að skila þessari niðurstöðu. Upp í Neðri-Botnum þarf að gera drenlagnir til að koma í veg fyrir að vatnsþrýstingur byggist upp ofan byggðarinnar og ýti skriðum á stað. Þá er gert ráð fyrir grjótvörnum sem grípa lausa steina og minni skriður.

Jón Haukur Steingrímsson frá Eflu kynnti frumathugunina. Hann nefndi einnig að stórendurbætt vöktun í kjölfar skriðufallanna í desember 2020 yki mjög öryggi á Seyðisfiðri. Í hreyfingum við skriðusárið í október í fyrra hefðu öll mælitækin virkað eins og vænst var. Nauðsynlegt sé að hafa bæði varnir og vöktun og kerfin spili saman.

Í fyrirspurnatíma sagði Hafsteinn Pálsson frá Ofanflóðasjóði að ef vel gengi gætu framkvæmdir verið klárar í útboð eftir þrjú ár. Fyrst þurfi að ljúka mati á umhverfisáhrifum og verkhönnun. Allur framgangur verksins velti hins vegar á fjárlögum sem ákveðin séu frá ári til árs. Fleiri svæði á landinu séu á hættusvæði C og þurfi að verja.

Matið hefur þó engin áhrif á byggð við Stöðvarlæk en frumathugun þar sýndi að ekki væri hægt að verja hús þar.

Hættusvæði C (rautt) og B (blátt) með bættum vörnum. Mynd: Efla