Skip to main content

Á áttunda hundrað manns þurft að fara að heiman

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. mar 2023 10:20Uppfært 01. apr 2023 18:41

Samkvæmt tölum Samhæfingarmiðstöðvar almannavarna hafa hátt í 800 manns rýmt heimili sín vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum í vikunni. Um það bil einn af hverjum sjö íbúum Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar fór að heiman í gær.


Til rýminga hefur verið gripið á Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Stöðvarfirði og í Neskaupstað í vikunni vegna hættu á snjó- og krapaflóðum. Á Seyðisfirði, Eskifirði og Neskaupstað var byrjað að rýma á mánudag en hinir staðirnir bættust við í gær.

Samkvæmt tölum Samhæfingarmiðstöðvarinnar var áætlað að 776 einstaklingar væru að heiman frá sér á Austfjörðum í gær vegna rýminga. Eru það um 7% heildaríbúafjölda sé miðað við töluna 11.000 frá Vopnafirði á Djúpavog. Það skekkir hlutfallið að í þeirri tölu voru staðir sem ekki voru rýmdir.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar búa 4173 í þeim byggðarlögum sem rýmd voru. Miðað við það hafa 18,6% þurft að fara að heiman. Ekki liggur nánar fyrir hvenig þessar tölur skiptast milli byggðarlaga.

Rýmingin er því ein sú umfangsmesta síðari ár. Þegar Seyðisfjörður var rýmdur í desember 2020 bjuggu þar um 660 manns, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Rýmingin nú er á við að þéttbýlið á Fáskrúðsfirði hefði verið tæmt, þar búa tæplega 770 manns.

Rauði krossinn heldur utan um komur í fjöldahjálparmiðstöðvar, þangað sem fólki er bent á að fara eftir rýmingu til að gera grein fyrir sér. Samkvæmt þeim þurftu 367 einstaklingar að fara úr húsum sínum í þeim rýmingum sem gripið var til í gær.

Flestir voru í Neskaupstað, 232, tæp 16% bæjarbúa. Á Seyðisfirði voru 95 skráðir eða 14,4%. Á Eskifirði gerðu 27 (2%) einstaklingar grein fyrir sér í fjöldahjálparmiðstöðinni á en 13 (7%) á Stöðvarfirði sem er mun lægra hlutfall en á hinum stöðunum. Á Fáskrúðsfirði var aðeins eitt hús rýmt.

Almennt gekk vel að koma fólki í húsaskjól fyrir nóttina og aðeins örfáir einstaklinga gistu í fjöldahjálparmiðstöðvum.

Aflétting er nú hafin og var byrjað á snjóflóðahættusvæðum á Seyðisfirði, Eskifirði og Norðfirði. „Rýmingin í gær gekk ágætlega eins og þær allar. Það er vert að þakka hvað íbúar hafa verið samstilltir. Við vonumst til að vera nú komin upp brekkuna,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.