Áberandi fæstir strandveiðibátar á svæði C
Áberandi fæstir strandveiðibátar eru á svæði C, sem nær yfir nær alla Austfirði. Þeim hefur þó fjölgað um 15% síðan á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tölum sem Landssamband smábátasjómanna heldur utan um. Á Austurlandi hafa 100 aðilar virkjað strandveiðileyfi sitt, samanborið við 87 á sama tíma í fyrra sem er 15% fjölgun. Fyrir tveimur árum voru leyfin 97. Umtalsverð fjölgun varð á svæðinu í annarri viku júní þegar 12 bátar bættust við.
Við upphaf veiða í maí höfðu 805 bátar fengið strandveiðileyfi á landsvísu. Langminnst hlutfall þeirra, 11% var á svæði C. Þeir eru flestir á svæði A eða 46%. Það er þó eina svæðið þar sem bátunum hefur enn fækkað. Á svæði B, sem er næst minnst, eru 145 bátar.
Bátar á svæði C urðu flestir um 150 talsins en smá saman hefur dregið úr þeim fjölda eftir að svæðaskipting kvóta var afnumin árið 2018. Austfirskir smábátasjómenn hafa gagnrýnt þetta því það þýði að önnur svæði veiði upp kvótann áður en fiskurinn gengur af alvöru austur fyrir landið. Í ár er í fyrsta sinn öllum veiðimönnum tryggður réttur til 48 daga veiða.
Afli í hverjum róðri er svipaður á svæði C og annars staðar. Hann hefur hins vegar almennt dregist saman, eða um 7% milli ára. Samkvæmt tölum eftir 20 daga veiðar var um helmingi minni heildarafli kominn á land á svæði C en annars staðar, en það hélst í hendur við fjölda báta og landana.