Skip to main content

Að lengja ferðamannatímann austanlands er lykilatriði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. nóv 2023 16:13Uppfært 02. nóv 2023 16:16

Sérstök vinnustofa að frumkvæði Austurbrúar um tæki- og sóknarfæri í ferðaþjónustu á Austurland sem haldin var í dag var mætavel sótt en einir 33 ferðaþjónustuaðilar báru þar saman bækur sínar.

Vinnustofan er sú fimmta í röðinni en slíkar stofur hafa farið þrívegis fram á Akureyri og ein fór fram á Bakkafirði í gær áður en kom að þessari sem haldin var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Hugmyndin að slíkri vinnustofulotu kom til þegar erlend áætlunarflugfélög hugðust fljúga beint til Akureyrar og Egilsstaða en það datt svo upp fyrir á Egilsstöðum þó ein þrjú flugfélög fljúgi milli Akureyrar og Evrópu.

Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, umsjónarmanns verkefnisins hjá Austurbrú kom það í sjálfu sér ekki að sök enda tækifærið kjörið til að sameina krafta ferðaþjónustuaðila og útbúa jafnvel í sameiningu ferðapakka sem freistað gætu erlendra sem innlendra aðila. Undir það tók Hjalti Páll Þórarinsson frá Markaðsstofu Norðurlands en þar eru stofnanir og fyrirtæki komin mun lengra á veg með slíka samvinnu sem hefur gefið góða raun. Málið snúist um að útbúa, kynna og selja fjölbreytta ferðapakka sem taka mið af aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Fólst einmitt lokahluti vinnustofunnar í að allir þátttakendur útbjuggu mismunandi pakkaferðir sem eftirspurn gæti verið eftir hvort sem er frá innlendum ferðamönnum eða erlendum.

Mikil ánægja var meðal þátttakenda sem Austurfrétt ræddi við enda allir á því máli að lykilatriði fyrir austfirska ferðaþjónustu væri að lengja ferðamannatímabilið enda hefur mörg undanfarin ár að mestu allt verið uppselt yfir sumarmánuðina. Sóknarfærin liggja í að freista fólks utan þess tíma þegar flestir gististaðir standa meira og minna tómir..