Aðeins eitt prósent rafmagnsbíla landsins á Austurlandi
Sex ár áður en íslensk stjórnvöld banna endanlega sölu bensín- eða dísilbíla í landinu og alfarið rafknúnir bílar taka við. Sú þróun gengur hægt fyrir sig á Austurlandi. Um 50 austfirsk heimili festu kaup á slíkum bíl á liðnu ári þegar þeir fengust ódýrari en nú er vegna tilslakana ríkisins.
Alls eru skráðir 26.410 rafmagnsbílar í notkun í landinu öllu þegar þetta er skrifað samkvæmt tölfræði Samgöngustofu. Hlutdeild íbúa Austurlands í þeirri tölu eru 266 bílar eða rétt um eitt einasta prósent af heildarfjöldanum.
Ekki svo að skilja að hlutfall rafmagnsbíla sé ekki að aukast austanlands eins og annars staðar. Fyrir sex árum síðan, árið 2018, voru einungis skráðir fimm rafmagnsbílar í fjórðungnum öllum. Á síðasta ári voru nýskráðir rafmagnsbílar frá Vopnafirði að Djúpavogi alls 40 talsins. Fyrir réttu ári síðan var hlutfallið af rafmagnsbílum á Austurlandi 0,6 prósent á landinu öllu en er nú rétt heilt prósent.
Í ofangreindum tölum eru eingöngu taldir bílar sem eingöngu keyra á rafmagni en töluverður fjöldi fólks á eða hefur keypt svokallaða tengiltvinnbíla eða blandbíla [hybrid] sem geta notast bæði við rafmagn og jarðefnaeldsneyti eins og bensín eða dísil. Nýja slíka bíla verður einnig óheimilt að selja frá árinu 2030.
Það eru Héraðsbúar á Egilsstöðum og næsta nágrenni sem virðast hvað spenntastir fyrir rafmagnsbílum. Á því svæði finnst hartnær helmingur allra rafmagnsbíla austanlands eða 129 bílar alls. Reyðfirðingar koma þar næstir en þar eru 40 slíkir bílar skráðir. Lestina reka líklega Breiðdælingar þar sem aðeins einn rafmagnsbíll er skráður á þeim bænum. Merkilegt nokk, er einnig eitt stykki rafmagnsbíll skráður á eiganda í Mjóafirði. Vel kann að vera að Mjóifjörður sé heimsmeistari í rafmagnsbílaeign miðað við fólksfjölda þó ekkert skuli fullyrt í því tilliti. Þar voru staðsettir alls 14 einstaklingar í lok árs 2022.