Aðeins konur á vakt í slökkviliði Fjarðabyggðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. júl 2025 13:51 • Uppfært 31. júl 2025 17:11
Undanfarna daga hafa bæði dag- og næturvaktir hjá slökkviliði Fjarðabyggðar verið skipaðar konum. Óvenju margar konur hafa starfað innan liðsins í sumar og hlutfall þeirra hefur vaxið undanfarin ár. Slökkviliðsmaður segir fjölbreytni mikilvæga fyrir liðið.
Hjá liðinu eru alla jafna þrjár konur fastráðnar og í sumar bættust fjórar við til skemmri tíma. Nokkrum sinnum í júlí hafa vaktirnar raðast þannig upp að dagvakt eingöngu skipuð konum, hefur afhent næturvakt, eingöngu með konum, ábyrgðina og tekið svo við henni aftur. Á hvorri vakt eru 3-4 starfsmenn.
Þannig voru til dæmis bæði vaktaskiptin í gærkvöldi og í morgun. „Þetta er ekki alvanalegt í slökkviliði. Það eru margir í sumarfríum þessa dagana og þess vegna raðast vaktirnar svona upp. Almennt eru þær blandaðar,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður.
„Þurfum öll að standast sömu kröfurnar“
Slökkvi- og sjúkraflutningalið hafa í gegnum tíðina mikið verið skipuð karlmönnum. Innan slökkviliðs Fjarðabyggðar, sem einnig sér um sjúkraflutninga í sveitarfélaginu, hefur konum heldur fjölgað síðustu ár. „Við vorum tvær sem byrjuðum um svipað leyti árið 2022 í aðalstöðinni á Hrauni. Þá voru þrjár fyrir. Konurnar eru fleiri ef útstöðvarnar eru taldar með og hefur farið fjölgandi.
Ég kann enga sérstaka skýringu á þessu en tímarnir hafa auðvitað breyst. Konurnar hafa kannski farið að sjá að þær geta sinnt þessum störfum á jafn við karlana. Við þurfum öll að standast sömu kröfurnar, til dæmis sama þrekprófið.
Að mínu mati er gott að hafa þetta blandað, þar sem verkefnin eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Það er gott að geta nýtt styrkleika beggja kynja í slökkvistarfi og í sjúkraflutningum,“ segir Stefanía.
Sjúkraflutningar helstu verkefnin
Hún segist ekki finna sérstakan mun á menningunni innan vaktarinnar eftir hvort hún er skipuð konum eða körlum. „Þetta eru allt mismunandi persónuleikar, sama af hvaða kyni þeir eru.“
Skipan vaktanna breytist aðeins um helgina þegar dagvaktin verður að næturvakt og þá kemur karlmaður í hópinn. Stefanía minnir líka á að til viðbótar við aðalvaktirnar sé ávallt stjórnandi á bakvakt auk þess sem starfsmenn á frívakt eða á útstöðvum geti stokkið til í stærri verkefnum.
Hún segir vaktirnar undanfarna daga hafa verið rólegar. „Nóttin var róleg, síðan var einn sjúkraflutningur í morgun til Norðfjarðar í veg fyrir sjúkraflug. Verkefnin okkar síðustu daga hafa mest snúist um sjúkraflutninga.“
Frá vaktaskiptum í síðustu viku. Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar