Aðeins meira fé umleikis til reksturs austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs
Rekstraráætlun austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir nýja árið lítur betur út en verið hefur undanfarin ár en framlög síðustu ára hafa jafnan dugað skammt til að standa undir öllum lögbundnum hlutverkum garðsins.
Rekstraráætlun þessa árs, sem samþykkt var nýverið, gerir ráð fyrir að hægt verði að fjölga stöðugildum á austursvæði svo hægt sé með þokkalegu móti að sinna landvörslu og þjálfa til þess landverði. Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir að lengja opnunartíma Snæfellsstofu og létta líka álaginu af heilsársstarfsfólki þjóðgarðsins.
Að sögn Rögnu Fanneyjar Jóhannsdóttur, þjóðgarðsvarðar á austursvæðinu, er vissulega ánægjulegt að fjármagnið sé aðeins hærra nú en áður enda sé ýmislegt sem þurfi að gera og sinna sem setið hefur annaðhvort á hakanum eða jafnvel unnið í skorpum eftir því hvað fjármagn leyfir. Framundan á nýja árinu sé meðal annars að halda áfram með viðhald Snæfellsskála og vinna sé hafin við að breyta og uppfæra sýningar í Snæfellsstofu fyrir sumarið en þær að megninu til verið þær sömu frá opnun.
„Þetta lítur betur út núna en oft áður og nú erum við til dæmis að auglýsa eftir starfskröftum. Það er alltaf krefjandi að sinna hlutunum þegar sparnaðarkröfur eru uppi en svo kom í ljós í lok síðasta árs að tekjur ársins voru aðeins meiri en búist var við. Það gefur okkur meira andrúm fyrir þetta ár.“
Snæfellsstofa í Fljótsdal er fjölsóttur ferðamannastaður enda þar margt forvitnilegt sem ber fyrir augu. Sýningum þar innandyra verður breytt aðeins á þessu ári. Mynd Visit Austurland.