Skip to main content

Aðeins rúmlega helmingur austfirskra kvenna láta skima fyrir leghálskrabbameini

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. feb 2024 09:28Uppfært 21. feb 2024 09:42

Austfirskar konur eru nokkrir eftirbátar kvenna í öðrum landshlutum þegar kemur að því að fara í skimun vegna leghálskrabbameins. Einungis rúm 57% kvenna hér fara í skimun miðað við 62% almennt annars staðar á landinu.

Samkvæmt síðustu opinberu lýðheilsuvísum fyrir landið allt frá árinu 2022 vantar töluvert upp á að allar konur á Austurlandi fari reglulega í skimun vegna leghálskrabbameins annars vegar og brjóstakrabbameins hins vegar. Það þrátt fyrir, ólíkt ýmislegri annarri heilsugæsluþjónustu, að aðgengi sé æði gott þegar og ef konur óska skoðunar.

Hrefna Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Austfjarða, er miður sátt við tölfræðina og hvetur konur á Austurlandi til að gera miklu, miklu betur.

„Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvers vegna konur eru ekki að nýta sér þennan möguleika en hlutfallið er alltof lágt að mínu mati. Skimanir geta beinlínis bjargað mannslífum ef meinin eru greind nógu snemma og breyta öllu varðandi horfur og meðferðarmöguleika. Við erum reyndar að standa okkur aðeins betur þegar kemur að skimun fyrir brjóstakrabbameini en betur má ef duga skal.“

Hrefna bendir á að einfalt sé að bóka skimun fyrir leghálskrabbameini í næstu heilsugæslustöð ellegar hjá kvensjúkdómalækni. Brjóstaskoðanir eru framkvæmdar reglulega í Reykjavík og á Akureyri auk þess sem skimað er með reglulegu millibili annars staðar á landinu. Þá bendir hún jafnframt á að allir íbúar landsbyggðarinnar eigi rétt á fullri endurgreiðslu kostnaðar vegna læknisþjónustu eða rannsókna allt að þrisvar sinnum á hverju ári. Konur hafi því í raun enga afsökun að láta hjá líða að fara í skimun.

* Myndin tengist ekki efni greinarinnar.