Aðgerðum vegna berklasmits lokið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. apr 2025 15:04 • Uppfært 01. apr 2025 15:05
Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur lokið vinnu sinni vegna berklasmits sem kom upp á Fáskrúðsfirði um miðjan mars. Ekki er talið að smitið hafi breiðst neitt út.
Í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í dag segir að sóttvarnahópur hennar hafi lokið smitrakningu meðal þeirra sem útsettir voru fyrir smiti. Niðurstaðan sé að tekist hafi að hindra frekara smit en um 40 einstaklingar voru kallaðir til greininga. Í tilkynningunni er öllum hlutaðeigandi þakkað fyrir ábyrgð og góða samvinnu.
Þótt berklar séu engan vegin sami skaðvaldur og þeir voru í byrjun 20. aldar þá geta þeir enn valdið miklum veikindum, einkum meðal ungra barna. Eins er bakterían lífsseig og þarf langa lyfjameðferð til að drepa hana niður, sem er önnur ástæða fyrir að enn er brugðist við af krafti þegar upp koma veikindi.
Þá flækir það smitrakningu að fólk getur smitast og borið með sér bakteríuna án þess að verða veikt, fyrr en seint og um síðir. Um leið þýðir það að þótt berklar finnist í sýni sem tekið er úr manneskju er afar erfitt að tímasetja hvenær viðkomandi smitaðist.