Æfðu rýmingu Norrænu á rúmsjó

Einhver stærsta björgunaræfing, sem haldin hefur verið á Austurlandi síðustu ár, fór fram á Seyðisfirði í gær þar sem æfð var möguleg rýming Norrænu vegna eldsvoða. Rúmlega 100 manns tóku þátt í æfingunni.

Um 100 einstaklingar frá austfirskum viðbragðsaðilum tóku þátt í æfingunni auk 90 áhafnarmeðlima Norrænu. Þá léku nemendur úr Seyðisfjarðarskóla farþega. Í hópi farþega og áhafnarmeðlima sem bjargað var voru slasaðir einstaklingar.

Æfingin var nokkuð stór á flesta mælikvarða. Í þessu tóku margar einingar þátt, við vorum með Landhelgisgæsluna, Smyril-Line, Rauða krossinn, björgunarsveitirnar, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Slökkvilið Múlaþings og lögregluna á Austurlandi,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Æfingin hófst klukkan 13 með tilkynningu um að brotist hefði verið inn í tölukerfi ferjunnar og jafnvel hótað að sökkva henni ef ekki yrði greitt lausnargjald. Um hálftíma síðar, þegar það mál var að leysast en viðbragð komið af stað, braust eldur út í vélarrúmi skipsins.

Um klukkan hálf fjögur var búið að bjarga fólki frá borði og æfingunni lokið. Kristján segir æfinguna almennt hafa gengið vel og gott hafi verið að æfa með öðrum því viðbragðsaðilar á Austurlandi hafi undanfarin misseri fengið lítið af æfingum en þeim mun meira af almannaverkefnum.

Þá hafi verið æft með nýjum aðilum og aðrar aðstæður. Þótt Norræna væri við bryggju á Seyðisfirði í gær áttu atburðirnir sér stað út á rúmsjó og varð þess vegna að koma fólki frá borði út í báta á sjó. Til stóð að þyrla Landhelgisgæslunnar tæki þátt í æfingunni en skömmu fyrir æfingu var ljóst að hún kæmist ekki.

Þá var orðin þörf á að æfa viðbrögð við atvikum í Norrænu. Slíkar æfingar fara fram í Færeyjum annað hvert ár en slíkar var síðast gert hérlendis árið 2005.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.