Ærslabelgir brátt á sinn stað eftir margra mánaða bið
Hreyfing er loks komin á uppsetningu tveggja svokallaðra ærslabelgja sem hin ýmsu fyrirtæki gáfu Múlaþingi síðastliðið haust með loforði um að sjá að fullu um kostnað við uppsetningu.
Belgirnir komu til landsins fyrir átta mánuðum síðan en nú er loks stefnt að því að koma þeim báðum fyrir að sögn Hugrúnar Hjálmarsdóttur, framkvæmda- og umhverfismálastjóra Múlaþings.
Uppsetning annars belgjanna er þegar hafin í Tjarnargarði á Egilsstöðum en upphaflega var ráðgert að koma honum fyrir við íþróttasvæðið á Vilhjálmsvelli. Fallið var frá þeirri hugmynd þar sem slíkur belgur á þeim stað gæti truflað æfingastarf á vellinum.
Hinn belgurinn hefur fengið stað í Fellabæ og hefur Ungmennaráð Múlaþings staðfest staðsetninguna. Framkvæmdir við uppsetningu eru þó ekki hafnar og segir Hugrún óljóst hvenær hægt verði að komast í verkefnið.