Skip to main content

Ætla að halda áfram byggðaþróunarverkefni á Borgarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. mar 2022 09:27Uppfært 18. mar 2022 09:37

Múlaþing hyggst ráða starfsmann til að sinna áfram byggðaþróunarverkefni á Borgarfirði eystra. Borgarfjörður hefur lokið þátttöku sinni í verkefni Byggðastofnunar um Brothættar byggðir.


Verkefninu var lokið á miðvikudagskvöld með íbúaþingi en verkefnið hófst formlega með slíku þingi í febrúar 2018. Strax í upphafi var ákveðið að verkefnið skyldi standa í fjögur ár.

Sveitarstjórn Múlaþings, að áeggjan heimastjórnar Borgarfjarðar, hefur undanfarna mánuði sótt á að verkefnið yrði framlengt um ár en við því vildi Byggðastofnun ekki verða.

Kristján Þ. Halldórsson, sérfræðingur hjá stofnuninni, sagði á fundinum á miðvikudag að gaman hefði verið að starfa ári lengur með Borgfirðingum, enda samstarfið verið sérlega árangursríkt, en matið hefði verið það að meðal annars í ljósi árangursins væri réttara að láta staðar numið og snúa sér að nýjum samfélögum sem biðu eftir að komast inn í Brothættar byggðir.

Hann sagði að Byggðastofnun gæti áfram veitt faglegan stuðning ef Múlaþing væri tilbúið að taka að sér að leiða verkefnið. Augljóst væri að nóg væri af verkefnum.

Það virðist verða niðurstaðan. „Við höfum engan áhuga á að láta þessu ljúka, frekar höfum við þá sýn að útvíkka verkefnið,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings.

Alda Marín Kristinsdóttir, sem verið hefur verkefnastjóri á Borgarfirði, hverfur nú til annarra starfa innan Austurbrúar. Björn sagði að Múlaþing ætlaði sér fyrir næstu mánaðamót að ráða í hlutastarf verkefnastjóra sem halda muni áfram byggðaþróunarverkefninu á Borgarfirði.