Ætla að höfða mál til ógildingar strandsvæðaskipulags Austfjarða
Hópur fólks í félagi sem er því mótfallið að sjókvíaeldi fái að þrífast í þröngum Seyðisfirði, Vá - félag um verndun fjarðar, hefur hafið formlega fjársöfnun í því skyni að fá nýlega samþykkt strandsvæðaskipulag Austfjarða ógilt fyrir dómstólum. Samkvæmt því skipulagi er sjókvíaeldi gefið grænt ljós í firðinum þrátt fyrir að yfirgnæfandi hluti íbúanna séu slíku mótfallin.
Fjársöfnunin er nýhafin en byrjunin lofar góðu að sögn Benediktu Guðrúnar Svavarsdóttur, eins forsprakka félagsins, en samtökin Icelandic Wildlife Fund hafa þegar styrkt söfnunina um 250 þúsund krónur.
„Við vorum bara að hefja þessa vegferð og njótum fulltingis Landverndar meðal annars. Við höfum í liði með okkur lögfræðing sem telur sig hafa fundið góðan flöt á að kæra þetta strandsvæðaskipulag. Við höfum náttúrlega verið í herferð gegn þessu um tíma svo þetta fór svona auðveldlega saman út af því. Það væri ágætt að fá stuðning sem flestra til að stoppa þetta með öllum hugsanlegum leiðum. Við njótum stuðnings Landverndar í þessu og reynum bara að fá allan þann stuðning sem við getum.“
Það var innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem veitti strandsvæðaskipulaginu blessun sína í byrjun marsmánaðar en samkvæmt því skipulagi er gert ráð fyrir drjúgu sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Skipti þar engu að 75 prósent heimamanna á Seyðisfirði eru mótfallin slíkum áformum samkvæmt könnun þar að lútandi.
Benedikta segir með ólíkindum að vilji mikils meirihluta heimafólks sé hundsaður með einni undirskrift ráðherra. „Það getur enginn sagt að það sé í lagi að virða vilja 75 prósent íbúa í firðinum að vettugi sísona. Slíkt á ekkert skylt við lýðræði af neinu tagi.“