Skip to main content

„Ætli ég sé ekki líklegastur til að vera með bæjarstjórann í maganum?“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. maí 2022 18:18Uppfært 03. maí 2022 18:28

Framboðin í sveitarstjórnarkosningunum í Fjarðabyggð segjast ganga óbundin til kosninga hvað varðar meirihluta samstarf. Flest ætla líka að bíða eftir úrslitum kosninganna áður en þau ákveða hvaða leið þau vilji fara með ráðningu bæjarstjóra.


Spurt var út í fyrirætlanir framboðanna í þessum efnum á framboðsfundi á Stöðvarfirði á sunnudagskvöld. Annars var spurt hvort einhver frambjóðenda gengi með bæjarstjóra í maganum, hins vegar hvaða stefnu þau hefðu um ráðningu bæjarstjóra.

Þá var spurt hvort þau vildu starfa með einhverju framboði umfram önnur eða hvort þau útilokuðu samstarf með einhverjum.

„Ætli ég sé ekki líklegastur til að vera með hann í maganum?“ sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks sem tók við sem bæjarstjóri haustði 2020. „Ég hef verið heiðarlegur með að það hefur verið mikið starf en skemmtilegt og gefandi og lýst mig tilbúinn að gegna áfram.“

Hann sagði að það ylti þó á í fyrsta lagi kosningaúrslitunum, í öðru lagi hvaða flokkar næðu saman og þriðja lagi hver stefna yrði um málefni. Hann sagði að í lýðræðissamfélögum væri ekkert samstarf útilokað en vissulega yrði reynt að finna mesta samhljóminn, meðal annars í gegnum stefnuskrár framboðanna.

„Við erum öll í þessu til að hafa áhrif. Við bíðum eftir að sjá hvaða umboð okkur er veitt. Það kemur í ljós að kosningum loknum,“ sagði Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans. Hann sagði ekkert útilokað í meirihlutaviðræðum en alltaf væri horft til þeirra framboða fyrst sem vinni í anda félagshyggju.

Ragnar Sigurðsson, sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn, sagði flokkinn ganga óbundinn til kosninga og ekki útiloka neitt samstarf. Þá hafi framboðið enga ákveðna stefnu um hvort skuli auglýst eftir bæjarstjóra eða ákveðinn einstaklingur ráðinn. Allt velti að lokum á úrslitunum.

„Það er ekkert hjartans mál af minni hálfu að auglýsa. Við höfum séð dæmi um að það hafi misfarist. Við verðum að sjá áhuga fyrir starfinu og að hæg verði að velja úr hæfum einstaklingum,“ sagði hann.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er hið eina sem afdráttarlaust vill auglýsa stöðuna. „Við erum ekki með bæjarstjóra í maganaum en ef við komumst í meirihluta viljum við auglýsa til að fá hæfasta kandídatinn. Hver sem er má sækja um,“ sagði Anna Berg Samúelsdóttir, sem skipar annað sætið.

Hún útilokað ekkert samstarf frekar en aðrir. „Þetta eru allt flottir flokkar og mikið til með sömu áherslurnar en gefa þeim mismikið vægi.“