„Ætlum að beita okkur verulega innan SSA“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. maí 2022 12:17 • Uppfært 25. maí 2022 12:17
Báðir fulltrúar Múlaþings í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi koma úr nýjum meirihluta í sveitarstjórn þar, samkvæmt meirihluta samkomulagi sem undirritað var í gær. Stórar ákvarðanir sem framundan eru í skipulagi Egilsstaða eru líklegar til að hafa mikil áhrif til framtíðar fyrir fjórðunginn.
Uppbygging Egilsstaðaflugvallar sem og gerð nýs vegar um Öxi og ganga undir Fjarðarheiði er meðal þess sem lögð er áhersla á í málefnasamningi flokkanna.
Í kafla um heilbrigðismál segir að lögð verði áhersla á grunnheilbrigðisþjónusta verði tryggð í hverjum byggðakjarna og nauðsynleg tæki til fullbráðagreiningar verði til staðar á heilsugæslunni á Egilstöðum. Allt eru þetta þó verkefni sem sveitarfélagið hefur ekki beina lögsögu yfir heldur ríkið.
„Öxi og Fjarðarheiðargöng eru á samgönguáætlun en við vitum að við megum ekki slaka á í samtalinu heldur berjast áfram. Það er ekkert í höfn fyrr en farið er af stað. Eins með flugvöllinn, þar verðum við að beita okkur verulega og við munum beita okkur innan SSA,“ svaraði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, þegar spurt var hvað Múlaþingi hefði um forgangsröðum ríkisins að segja.
Sæti í stjórn SSA hafa skipst milli sveitarfélaga eftir stærð auk þess sem minni- og meirihlutar hafa fengið sitt fólk. Samkvæmt nýja samkomulaginu munu báðir fulltrúar Múlaþings koma úr meirihluta.
„Nei, ég myndi ekki segja það,“ svaraði Jónína þegar spurt var út í hvort þær teldu Múlaþing hafa farið halloka út úr samstarfinu innan SSA.
„Þar inni er töluverð nýliðun og við höfum háleitar hugmyndir, erum öflugar með nýja aðferðafræði. Við treystum okkur til að fara alla leið í þessum áherslumálum. Akkúrat núna er ég varaþingmaður og byrjuð að stíga inn þar. Það sýnir kraftinn í okkur til að fara alla leið.
Í dag er meirihlutinn bara með einn fulltrúa (í stjórn SSA). Við sækjumst eftir að fara fara báðar þar inn og verðum strax öflugar,“ bætti Berglind Harpa við.
Jónína benti á að skipulagsmál, einkum á Egilsstöðum í tengslum við stækkun flugvallarins, lagningu vegar frá Fjarðarheiðargöngum og nýja Lagarfljótsbrú, muni hafa áhrif víða um fjórðunginn. Gert er ráð fyrir að vinna við nýtt aðalskipulag hefjist í haust. „Á næstu 10-15 árum verða tekin stór skref í framkvæmdum hér sem þarf að skoða í víðu samhengi. Það þarf að skoða forgang þeirra með það sem í framhaldinu kemur í huga.“