Skip to main content

Af illri nauðsyn sem loka þarf Jökulsárbrú á Fjöllum á háannatíma

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. ágú 2025 15:58Uppfært 19. ágú 2025 16:00

Allnokkur óánægja er meðal margra Austfirðinga, og líkast til fleiri einstaklinga, með lokun brúarinnar yfir Jökulsá á Fjöllum frá klukkan átta á morgnana til klukkan 19 á kvöldin næstu tvær vikurnar. Þó opnað sé tímabundið fjórum sinnum stuttlega yfir það tímabil dag hvern kemur þetta illa við ferðalanga á leið norður að austan eða austur að norðan.

Austurfrétt forvitnaðist um það hjá Vegagerðinni hvort ekki hefði verið fær betri leið til að sinna viðhaldi þessarar 78 ára gömlu einbreiðu brúar án þess að loka henni nánast frá morgni til kvölds enda um þjóðveg að ræða sem fjölmargir ferðast um dag hvern.

Fram kemur í svari Sigríðar Ingu Sigurðardóttur hjá Vegagerðinni að þar á bæ átti menn sig mætavel á miklu mikilvægi brúarinnar fyrir ferðalanga og flutninga til og frá Austurlandi því annars þurfi að fara æði langa króka milli landshlutanna.

„Það er ekki nema af illri nauðsyn sem við förum út í lokanir á brúnni.  Það er verið mála kaplanna á henni og á Íslandi höfum við bara örfáa daga á ári til að sinna slíku viðhaldi, annars bjóða veðurskilyrði ekki uppá slíkt. Því miður er sá tími innan háannatíma í ferðaþjónustu.

Fram kemur ennfremur í svari Sigríðar að ekki sé vel mögulegt að sinna slíkri málningarvinnu á kvöldin eða næturnar.

Það hentar því miður ekki vel að mála að næturlagi, næturvinnu fylgir bæði kuldi og hátt rakastig sem er ekki hentugt fyrir málningarvinnu af þessu taginu.

Tæp ellefu ár eru liðin síðan til stóð að hefja framkvæmdir við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum og átti glæný brú að vera risin haustið 2016 en með henni átti þjóðvegurinn að styttast um 1100 metra. Fátt hefur þokast síðan þá.

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum komin vel til ára sinna svo viðhaldsþörfin er rík. Flókið er að sinna hluta þeirrar vinnu að kvöld- eða næturlagi. Mynd Vegagerðin