Afar takmörkuð áhrif á Austurlandi af væntanlegum kuldapolli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. jún 2023 16:30 • Uppfært 08. jún 2023 16:43
Kalt loft frá Grænlandi, sem siglir framhjá norðvestanverðu landinu um helgina, mun lítil áhrif hafa á Austurlandi. Von er á miklum hlýindum frá og með sunnudegi.
Að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðing hjá Veðurvaktinni/Bliku, er kuldapollurinn einangraður við háloftin og fer um Grænlandssund en ekki yfir landið. Hann geti þó framkallað kulda á norðvestanverður landinu, jafnvel snjókomu til fjalla á Vestfjörðum.
Ekki er þó víst að Austfirðingar sleppi alveg við áhrif kuldaskilanna þrátt fyrir að spáð sé 15 stiga hita og jafnvel meira yfir daginn. Spáð er hægviðri og heiðskýru aðfaranótt sunnudags og er möguleiki að einhvers staðar frjósi eystra. „Við gætum séð það á Möðrudalsöræfum, jafnvel niður á Héraði ef veðrið verður mjög stillt.“
Frá og með sunnudegi er hins vegar spáð 20 stiga hita eða meira fram í miðja viku en Einar bendir á að eftir þann tíma sé meiri óvissa í spánum. „Eftir kuldapollinn kemur ný hæð suður af landinu sem beinir til okkar hlýju lofti. Sunnan- og suðvestanáttir verða ríkjandi sem þýðir að hitinn nær sér niður á Austurlandi.“
Blika hefur nýverið bætt þjónustu sína með þannig að hægt er að leita eftir dagsetningum og láta vefinn raða tjaldsvæðum í röð eftir hvar veðurspáin er best. Einar bendir á að næstu daga raðist tjaldsvæði á Fljótsdalshéraði og Vopnafirði í efstu sætin. „Þegar við prófuðum þetta í gær þá komu upp Skipalækur, Ásbrandsstaðir og Atlavík. Spáin byggir á hita, skýjahulu, sólskini, vind og úrkomu.“