Skip to main content

Afhenda lykla að nýjum leiguíbúðum á Seyðisfirði í næsta mánuði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2025 10:10Uppfært 04. apr 2025 10:11

Þeir einstaklingar eða fjölskyldur sem um sækja og fá grænt ljós í umsóknarferlinu geta átt von á að fá afhenda lyklana að glænýjum leiguíbúðum á Seyðisfirði strax í byrjun næsta mánaðar.

Íbúðafélagið Brák hses. hefur formlega opnað fyrir umsóknir í einar átta leiguíbúðir við Lækjargötu 2 á Seyðisfirði en þær íbúðirnar sérstaklega ætlaðar fyrir fólk 60 ára eða eldra. Íbúðirnar sömuleiðis, eins og allar íbúðir Brákar íbúðafélags, fyrst og fremst fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga eða fjölskyldur og tekur greiðslubyrðin mið af því.

Íbúðirnar eru mismunandi stórar, allt frá 54 fermetrum og upp í 94 fermetra, en þeim fylgir öllum aðgangur að björtum samkomusal í miðrými hússins.

Á vef Brákar hses. kemur fram að umsóknarfrestur sé til og með 15. þessa mánaðar og úthlutun fari fram um leið og búið er að fara yfir allar umsóknir sem berast. Þeir sem hnossið hljóta fá lyklavöld að nýjum samastað þann 1. maí næstkomandi.

Íbúðalengjan sem um ræðir stendur þar sem gamli fótboltavöllur heimamanna var áður til staðar. Mynd Brákhses