Afkoma A-hluta Fjarðabyggðar verri en reiknað var með

Þótt heildarafkoma Fjarðabyggðar á síðasta ári hafi verið jákvæð um 410 milljónir var afkoma A-hluta neikvæð um 102 milljónir, 80 milljónum verri en búist var við. Óhagstæð vaxtaþróun skýrir það að miklu leyti. Á sama tíma er veltufjárhlutfall sveitarfélagsins með allra besta móti.

Þetta kemur fram í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2023 en hann var opinberaður samhliða fyrstu umræðu um hann í bæjarstjórn í gær.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins voru alls 10,6 milljarðar, þar af 8,5 milljarðar í A-hluta, sem er sá hluti sveitasjóðs sem eru reglubundin verkefni fjármögnuð að mestu með skatttekjum. Rekstrarniðurstaðan úr A-hlutanum er jákvæð upp á 743 milljónir fyrir afskriftir og fjármunagjöld.

Heildarniðurstaða A-hlutans er hins vegar 102 milljóna tap en í áætlun var reiknað með 20 milljóna tapi. Þetta er þó mun betri niðurstaða heldur en í fyrra þegar tapið var 373 milljónir.

Þegar B-hlutinn, verkefni fjármögnuð með sértekjum, bætist við rætist úr. Þá verður afkoman jákvæð um 1,7 milljarða fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Þegar það hefur allt verið reiknað út kemur samstæðan út í 409 milljóna hagnaði, sem er 14 milljónum undir áætlun.

Við nánari rýni á tölunum kemur í ljós að skatttekjur eru töluvert hærri en reiknað var með. Á móti er greitt meira í laun og tengd gjöld, þótt það vaxi hlutfallslega mun minna.

Veltufjárhlutfall með allra besta móti


Ljóst er að vaxtaþróun síðasta árs hefur bitið Fjarðabyggð fast. Fjármunagjöld eru töluvert hærri en reiknað var með, um 150 milljónum hærri í A-hluta og 230 milljónum hærri í heildina. Skuldir Fjarðabyggðar vaxa um tæpan milljarð, eigið fé og skuldir eru 12,8 milljarðar. Þar af vaxa skuldir við lánastofnanir um 500 milljónir, eigin fyrirtæki um 300 milljónir og lífeyrisskuldbindingar um 200 milljónir.

En upphæð skuldanna segir ekki alla stöðuna. Skuldahlutfall samkvæmt lögum, sem er hlutfall af tekjum, lækkar úr 113% niður í 109%. Samkvæmt áætlun átti það að minnka enn meira, eða niður í 104%.

Þá er veltufé frá rekstri jákvætt um 938 milljónir úr A-hlutanum og 1,8 milljarðar úr samstæðunni. Veltuféð úr A-hlutanum er 400 milljónum meira heldur en í fyrra. Þetta þýðir að veltufjárhlutfall A-hluta Fjarðabyggðar er jákvætt um 11%, sem er með besta sem fyrirfinnst meðal íslenskra sveitarfélaga. Handbært fé sveitarfélagsins hækkar um 200 milljónir milli ára.

Æðsta stjórn dýrari


Þótt launakostnaður sveitarfélagsins aukist kemur fram í ársreikningnum að hagræðing hafi orðið. Stöðugildum hjá því fækkar um 30 og ársverkum um 10. Á móti aukast laun og launatengd gjöld vegna bæjarstjórnar og bæjarstjóra um 23 milljónir, fara úr 74 milljónum í 97. Bæjarstjóraskipti urðu í Fjarðabyggð í fyrra.

Fræðslu- og uppeldismál er sá málaflokkur sem tekur mest til sín, 3,6 milljarða. Það er um helmingur skattekna eða heildarútgjalda en hlutfall málaflokksins hefur heldur lækkað síðustu ár. Í B-hlutanum þá munar mestu um Fjarðabyggðar hafnir sem skila 465 milljóna afgangi, um 150 milljónum meira en áætlað var með. Á móti er tap sorpmiðstöðvar 112 milljónir, um helmingi meira en áætlað var.

Í sérstökum skýringum með ársreikningnum kemur fram að sveitarfélagið standi í dómsmáli þar sem það sé krafið um að nýta kauprétt fasteign að Hafnargötu 6 á Reyðarfirði, þar sem Terra er með starfsstöð. Fjarðabyggð er krafin um 139 milljónir auk vaxta.

Hvað sögðu oddvitarnir?


Í umræðum á fundinum í gær sagði Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, að staða A-hluta sveitarfélagsins væri áhyggjuefni, meðal annars í ljósi þess að tekjur ykjust. Sterk staða sveitarfélagsins í heild væri ekki mikils virði ef ekki væri hægt að láta íbúana njóta þess. Vont væri að auknar tekjur færu í afborganir lána. Þess vegna væri skuldsetningin neikvæð.

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs síðasta ár, sagði að sveitarfélagið hefði glímt við verðbólgu og launahækkanir umfram áætlanir. Að sama skapi mætti sjá í ársreikningnum vísbendingar um að reksturinn væri á réttri leið, svo sem að böndum hefði verið komið á laun- og launakostnað.

Jón Björn Hákonarson, fyrrverandi bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokks, tók undir merki um jákvæðan bata. Hann sagði að taka þyrfti upp tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í samræmi við breytta verkskiptingu þeirra sem orðið hefði til síðustu 20-30 ár. Hann líkti samningum um fjármögnun grunnskóla við boðorðin 10 sem Móses hefði komið með niður af fjallinu meitluð í stein.




 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.