Afkoma Múlaþings árið 2023 verri en áætlað var

Rekstrarniðurstaða Múlaþings árið 2023 er um 200 milljónum lakari samkvæmt ársreikningi en gert var ráð fyrir í áætlunum. Há verðbólga og auknar lífeyrisskuldbindingar eru sögð helsta ástæðan.

Endanleg rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarfélagsins, sem er reglubundinn rekstur fjármagnaður með skattheimtu, var neikvæð um 523 milljónir samkvæmt ársreikningnum sem tekinn var til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í mars. Samkvæmt áætlun var búist við rúmlega 128 milljóna tapi. Í tilkynningu sveitarfélagsins segir að lakari niðurstaða en áætlað var skýrist að mestu af neikvæðri þróun á verðbólgu á árinu 2023 og hækkun á lífeyrisskuldbindingu umfram áætlun.

Rekstrartekjur voru 8,15 milljarðar en rekstrargjöld 7,7 milljarðar og afkoman fyrir afskriftir og fjármagnsliða jákvæð um 449,4 milljónir. Skatttekjur voru um 300 milljónum hærri en áætlað var og launakostnaður um 100 milljónum hærri.

Annar rekstrarkostnaður fór hins vegar 600 milljónir fram úr áætlun og þá kostaði breyting á lífseyrisskuldbindingu sveitarfélagið 100 milljónum meira en áætlað var. Byggir það að stórum hluta á ákvörðun Brúar lífeyrissjóðs um innheimtu viðbótarframlags vegna tiltekins hóps með tryggð réttindi hjá sjóðnum. Þá má sjá að í A-hlutanum afkoma fjármagnsliða um 200 milljónum lakari en áætlað var.

Veltufé frá rekstri jákvætt um 6%


Séu A og B-hlutinn, sem eru verkefni fjármögnuð með sértekjum, lagðir saman þá er afkoman jákvæð um tvær milljónir en átti að vera jákvæð um 223 milljónir. Rekstartekjur voru 9,6 milljarðar en rekstrargjöld 8,2 milljarðar. Þá eru eftir afskriftir og fjármagnsliðir.

Veltufé frá rekstri A-hluta er þó engu að síður jákvætt um tæp 6% eða 482 milljónir. Vonir stóðu þó til að það yrðu um 120 milljónum meira eða um 8%. Veltufé A og B hluta er jákvætt um 1,3 milljarð, um 100 milljónum meira en áætlað var. Handbært fé A hluta hækkar um 50 milljónir milli ára.

Góð afkoma hafna og hitaveitu


Skuldir Múlaþings vaxa um rúman milljarð, úr 9,9 milljörðum í 11 í A-hluta en úr 15,2 í 16,8 í samstæðureikningi. Skuldahlutfall miðað við reglugerð um fjármál sveitarfélaga, þar sem það er reiknað út frá reglulegum tekjum, lækkar úr 110% í 105% en samkvæmt áætlun átti það að aukast í 114%.

Fræðslu- og uppeldismál eru langstærsti útgjaldaliðurinn. Kostnaður við málaflokkinn er 3,8 milljarðar eða 53% skatttekna. Stöðugildum hjá Múlaþingi fjölgar um þrjú milli ára og voru 436 í lok árs.

Í B-hluta munar mestu um góða afkomu hafnarsjóðs sem skilar 336,3 milljónum en áætlun gerði ráð fyrir 91 milljón. Þar af leggur hafnarsjóður Djúpavogs 177 milljónir í púkkið, Seyðisfjarðar 154 og Borgarfjarðar 20,6. Þá er afgangur af rekstri HEF veitna 284 milljónir, þar af er hitaveituhlutinn jákvæður um 332 milljónir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.