AFL: Ekki staða til átaka á vinnumarkaði
Samninganefnd AFLs starfsgreinafélags varar við að gerðir verði langtímakjarasamningar. Þótt forsendur kjarasamnings séu að mestu brostnar telur nefndin að ekki sé staða til átaka á vinnumarkaði að sinni.
Þetta kemur fram í ályktun frá fundi nefndarinnar í liðinni viku. Þar er varað því að treysta á samninga sem gerðir eru skömmu fyrir þingkosningar.
„Kosningabarátta næstu mánaða þýðir að lítið verður að treysta á ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu þar sem næsta ríkisstjórn mun væntanlega telja sig óbundna af samkomulagi sem gert er í aðdraganda kosninga.“
Því þurfi launafólk að vera þolinmótt og undirbúa kjarasamninga næsta vetur. „AFL óttast þó að fyrirtæki og verslanir muni velta kostnaði út í verðlagið – án þess að launafólk geti rönd við reist.
Félagið varar við því að gerðir séu samningar til margra ára með endurskoðunarákvæðum í ljósi reynslunnar á yfirstandandi samningstímabili.“