Skip to main content

Aflaverðmæti Hoffells yfir milljarður króna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2022 14:31Uppfært 04. apr 2022 14:35

Verðmæti afla Hoffells, skips Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, nam yfir einum milljarði króna á fyrsta fjórðungi þessa árs. Er það besti ársfjórðungur í sögu skipsins.


Frá þessu er greint á vef Loðnuvinnslunnar. Skipið veiddi tæplega 16.700 tonn af loðnu á nýafstaðinni vertíð. Það náði þó ekki öllum kvóta sínum, frekar en flest önnur loðnuveiðiskip. Dreifð loðna og bræla settu strik í reikninginn.

„Það vantaði þessar stóru torfur sem skipin hafa gjarnan fylgt. Einhverjir hafa áhyggjur af því að hún sé dreifð því atast hafi verið í henni með trollum. Það liggur ekkert vísindalegt því til sönnunar en eldri menn hafa áhyggjur og á þá ber að hlusta,“ sagði Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Alls var tekið á móti um 50.000 tonnum af loðnu hjá Loðnuvinnslunni. Fyrirtækið vann um 2.750 tonn af hrognum, það mesta af íslensku fyrirtækjunum. Friðrik lýsir vertíðinni sem góðri þótt hún hafi verið erfið á köflum. Hann hefði þó gjarnan viljað framleiða meira af hrognum.

„Þar gerði gæfumuninn að þrjú færeysk skip lönduðu hjá okkur. Við höfum um 14 daga til að taka hrogn og ef þá gerir brælu þá dragast þeir dagar frá. Núna var fimm daga bræla á besta tíma þar sem enginn gat gert neitt.“

Hoffellið, sem og skip annarra uppsjávarútgerða á Austurland, bíður þess nú að hefja veiðar á kolmunna. Reikna má með að það verði um miðjan mánuðinn.

Mynd: Loðnuvinnslan