Skip to main content

Aflýsa Urriðavatnssundinu vegna kulda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. júl 2023 13:52Uppfært 27. júl 2023 13:55

Urriðavatnssundinu þetta árið hefur verið aflýst vegna kulda í vatninu en það átti að fara fram á laugardaginn kemur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum sundsins sem segja mælingar á hitastigi Urriðavatns snemma í morgun hafi aðeins sýnt 11,8 stig. Það er rúmum þremur hitastigum lægra en verið hefur nánast frá upphafi sundsins árið 2013. Aðeins í eitt skipti hafi hitastigið verið lægra en nú mældist og þrátt fyrir að sundið þá hafi verið stytt kvörtuðu margir keppendur yfir kulda og þurftu aðstoð.

Lágt vatnshitastig er afleiðing lágs lofthita en hitastig á Héraði hefur vart farið yfir tíu stig þegar mest var síðustu vikuna og næturhiti dottið niður í fimm stig stöku daga. Ekki er breytinga að vænta á því samkvæmt spám Veðurstofu Íslands.

Biðja skipuleggjendur velvirðingar á þessu en ákvörðunin sé tekin með öryggi sundfólksins að leiðarljósi. Allir fái endurgreitt sem ætluðu að taka þátt og þeir sem hugðust keppa sem lið í Landvættaþrautinni fá sendar upplýsingar um hvað gera skuli.