Skip to main content

Áfram boðið upp á söfnun á málm- eða járnarusli í sveitum og bæjum Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. júl 2025 13:46Uppfært 01. júl 2025 13:47

Það tilraunaverkefni Múlaþings að bjóða hirðingu á málm- eða brotajárnrusli úr sveitunum tókst svo vel í fyrra að framhald verður á um miðjan ágúst. Að þessu sinni geta einstaklingar eða fyrirtæki í þéttbýlunum einnig óskað eftir slíkri þjónustu.

Það eru verðmæti í málmum og járnarusli sem víða safnar ryði í þétt- og dreifbýlum landsins en það er fyrirtækið Hringrás á Reyðarfirði sem sér um að safna efninu, flokka það og þaðan fer það í endurvinnslur erlendis. Efnið úr úreltu dráttarvélinni eða ryðguðum númerslausum bílnum, sem ella væri lýti á náttúrunni eða lóðinni hjá fólki gæti því vel átt framhaldslíf í nýjum tækjum eða vélum í framtíðinni að sögn Harðar Ólafs Sigmundssonar hjá Hringrás.

„Við sækjum efnið, flokkum það eftir bestu getu og hreinsum og frá okkur fer það tvisvar á ári í skip sem flytja þetta allt saman í endurvinnslur erlendis. Það er ágætlega greitt fyrir slíkt ef vel er flokkað þó vissulega sé mikill kostnaður líka því samfara að safna þessu saman og vinna til útflutnings.“

Fyrir utan að nú nær slík söfnun víðar en bara til sveitanna hefur svæðum einnig verið skipt niður í þrennt og verður þjónusta þessi aðeins í boði á hverju svæði á þriggja ára fresti héðan í frá. Frá og með miðjum ágúst verður efni safnað á Seyðisfirði, Borgarfirði, Jökulsárhlíð, Hróarstungu og Hjaltastaða- og Eiðaþinghá en aðrir staðir í Múlaþingi verða að bíða næsta eða þarnæsta árs.

„Ég hygg að þetta sé gert því sveitarfélagið er svo víðfeðmt og afar tímafrekt að safna efni saman á því öllu,“ segir Hörður. „En ég vill endilega taka fram að það er þess utan alltaf hægt að hafa samband við okkur beint og við reynum að senda bíl til söfnunar ef fólk lætur okkur vita. Þetta gildir ekki aðeins um málma eða járnarusl heldur tökum við einnig hluti eins og hjólbarða sem liggja víða í haugum í sveitunum. Allt slíkt er endurvinnanlegt sem er betra en láta það menga náttúruna.“

Hörður segir augljóst af viðbrögðum síðasta árs að mikil vakning eigi sér stað um að rusl sé betur komið í endurvinnslu en á lóðum og túnum hist og her. Löngum hefur ferðafólki þótt lýti á ferð um landið hve mikið af gömlu járnarusli liggur á fallegum svæðum fyrir utan að ýmis mengandi efni frá þeim leka gjarnan niður í jarðveginn með tíð og tíma.