Skip to main content

Áfram fækkar í sveitunum austanlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. feb 2022 13:38Uppfært 03. feb 2022 13:41

Íbúafjöldi á Austurlandi stóð mikið til í stað milli áranna 2020 og 2021. Mest fjölgun fólks reyndist á Egilsstöðum og Eskifirði en nokkur fækkun varð aftur á móti í sveitum fjórðungsins.

Þetta má lesa út úr mannfjöldatölum Hagstofu Íslands en stofnunin birti fyrir skemmstu tölur fyrir nýliðið ár.

Við fyrstu sýn virðist sem íbúum Austurlands hafi fækkað umtalsvert. Árið 2020 bjuggu 13.173 einstaklingar á Austurlandi en í fyrra hrapaði fjöldinn niður í 10.850 manns. Þetta á sér hins vegar þær skýringar að frá ársbyrjun 2021 var Hornafjörður ekki talinn lengur til Austurlands í mælingum Hagstofunnar eins og verið hefur.

Íbúum á Egilsstöðum fjölgaði mest eða um 30 manns milli þessara ára og íbúum á Eskifirði fjölgaði um 20 á sama tíma. Hlutfallslega varð þó mest fjölgun íbúa á Stöðvarfirði en þar bættust 14 einstaklingar við flóru bæjarbúa. Fimm slógust í hópinn á Borgarfirði eystri og á Djúpavogi fjölgaði heimamönnum um sjö.

Nokkuð fækkaði í sveitunum en það hægt og sígandi verið raunin um töluvert skeið. 1.844 voru skráðir til búsetu í strjálbýli á Austurlandi 2020 en fækkaði um 25 milli ára niður í 1.819. Þá fækkaði íbúum um 13 á Reyðarfirði, 12 hurfu á braut frá Neskaupstað og blóðtakan umtalsverð í Fellabæ þar sem 11 færri voru skráðir með búsetu 2021 en 2020.

Á öðrum þéttbýlisstöðum á Austurlandi varð hvorki fjölgun né fækkun að neinu ráði.

Mynd: Á Reyðarfirði varð fólksfækkun milli 2020 og 2021.