Skip to main content

Áfram snjóflóðahætta á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. mar 2024 09:35Uppfært 04. mar 2024 09:41

Sökum rigninga og almennra hlýinda á Austurlandi næstu dægrin verður áfram nokkur snjóflóðahætta viðvarandi að mati Veðurstofu Íslands. Sérstaklega er hætta á votflóðum í neðri hluta hlíða.

Þrjú minniháttar flekasnjóflóð urðu um helgina við bæði austfirsku skíðasvæðin í Stafdal og Oddsskarði. Í öllum þeim tilvikum um að ræða skíðamenn sem voru á ferð utanbrautar en ekki á sjálfum troðnum skíðasvæðunum. Eitt flekaflóð féll einnig í Stafdalnum fyrir rúmri viku síðan vegna þess sama. Einn skíðamaður varð undir um helgina en slasaðist ekki alvarlega þó lemstraður væri.

Veðurstofan metur hættu á snjóflóðum áfram töluverða bæði í dag og á morgun en hættan fer svo minnkandi á nýjan leik á miðvikudaginn kemur. Þar kemur til léleg binding snjós sem féll um helgina við eldri snjó sem gekk gegnum hlákutíð snemma í síðustu viku.

Tekið er fram að spáin er einkum gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og tekur bæði til hugsanlegra flóða af mannavöldum auk veðurtengdra flóða.  Spáin þó ekki sérstaklega lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð eins og það er orðað.

Hlýindakafla er spáð út þessa viku á Austurlandi öllu, allt að sjö til átta stiga hita alla næstu daga og hægviðri að mestu.