Áfram snjóflóðahætta á Austurlandi

Sökum rigninga og almennra hlýinda á Austurlandi næstu dægrin verður áfram nokkur snjóflóðahætta viðvarandi að mati Veðurstofu Íslands. Sérstaklega er hætta á votflóðum í neðri hluta hlíða.

Þrjú minniháttar flekasnjóflóð urðu um helgina við bæði austfirsku skíðasvæðin í Stafdal og Oddsskarði. Í öllum þeim tilvikum um að ræða skíðamenn sem voru á ferð utanbrautar en ekki á sjálfum troðnum skíðasvæðunum. Eitt flekaflóð féll einnig í Stafdalnum fyrir rúmri viku síðan vegna þess sama. Einn skíðamaður varð undir um helgina en slasaðist ekki alvarlega þó lemstraður væri.

Veðurstofan metur hættu á snjóflóðum áfram töluverða bæði í dag og á morgun en hættan fer svo minnkandi á nýjan leik á miðvikudaginn kemur. Þar kemur til léleg binding snjós sem féll um helgina við eldri snjó sem gekk gegnum hlákutíð snemma í síðustu viku.

Tekið er fram að spáin er einkum gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og tekur bæði til hugsanlegra flóða af mannavöldum auk veðurtengdra flóða.  Spáin þó ekki sérstaklega lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð eins og það er orðað.

Hlýindakafla er spáð út þessa viku á Austurlandi öllu, allt að sjö til átta stiga hita alla næstu daga og hægviðri að mestu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.