Áfram unnið að hugmyndum um atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði

Áfram er unnið með þær hugmyndir sem komu út úr vinnu starfshóps um framtíð atvinnustarfsemi á Seyðisfirði í kjölfar lokunar frystihúss Síldarvinnslunnar. Forstjóri fyrirtækisins segir skoðun í gangi á þeim atriðum sem snúi að því en allt taki sinn tíma.

„Það er ákveðin vinnsla í gangi en það tekur allt sinn tíma. Það er líka alla jafna rólegt yfir sumarleyfistímann í júní og júlí,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar um áframhald þeirra tillagna sem starfshópurinn skilaði af sér.

Starfshópnum var komið á í samstarfi sveitarfélagsins Múlaþings, Austurbrúar og Síldarvinnslunnar. Hann skilaði af sér lokatillögum í maí sem eru í grófum dráttum í þrennu lagi: að skipta frystihúsinu upp í iðnaðarbil, byggja upp nýtt hús fyrir fjarvinnu í anda Múlans í Neskaupstað og að byggja nýtt hótel.

Síldarvinnslan tók að sér að skoða nánar hvað þyrfti að gera til að nýta frystihúsið og hins vegar vinna fýsileikakönnun fyrir hótelið. „Það var samstaða til að fá aðila til að skoða möguleikann á að breyta frystihúsinu og sú finna er í gangi.

Sumar þeirra hugmyndir sem komu fram geta farið af stað án mikilla breytinga á húsinu. Eftir því sem ég veit best þá hefur þeim hugmyndum verið komið á framfæri við viðkomandi.

Það breytir ekki því að húsið stendur á hættusvæði og það er ekkert komið í ljós um hvernig eigi að verja það eða hvenær. Við hefðum viljað að Ofanflóðasjóðasjóður keypti húsið. Við höfum tjáð Múlaþingi að Síldarvinnslan væri tilbúin að veita söluandvirðinu til sveitarfélagsins til uppbyggingar á Seyðisfirði.“

Áfram hefur einnig verið unnið að hótelhugmyndinni. „Það hafa verið töluverðir fjármunir í þá hugmynd og verið unnin undirbúningsvinna, svo sem að vinna hentuga staðsetningu. Það hefur hins vegar aldrei staðið til að Síldarvinnslan yrði leiðandi í verkefnunum þannig það þarf að fá fjárfesta inn í verkefnið. Vonandi kemur það betur í ljós á næstu mánuðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.