Aftur reynt að sökkva hvalnum af Norrænu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2025 11:16 • Uppfært 11. júl 2025 11:16
Starfsmenn fiskeldisfélagsins Kaldvíkur gerðu í gærkvöldi aðra tilraun að því að sökkva dauðum hval sem fyrst komst í fréttirnar þegar hann lenti framan á stefni Norrænu um miðjan júní. Óttast var að hvalurinn gæti valdið vandræðum við fiskeldiskvíar í Berufirði þangað sem hann rak í síðustu viku.
Um er að ræða hnúfubak sem talið er að hafi verið dauður þegar hann lenti framan á stefni Norrænu að morgni fimmtudagsins 19. júní. Hans varð endanlega vart þegar skipið kom til hafnar á Seyðisfirði þann morgunn.
Þar var hann fjarlægður af skipinu og dreginn á haf út þar sem reynt var að sökkva honum. Það er vandasamt verk því skera þarf rétt á hvalinn til að hleypa út gasi til þess að hann sökkvi. Ekki virðist hafa tekið nógu vel til, miðað við að hvalurinn skaut aftur upp kollinum neðan við bæinn Hamraborg í norðanverðum Berufirði fyrir rúmri viku.
„Hann var þar uppi í fjöru, hálfur á floti. Það er búist við að það verði stórstreymt um helgina þannig hann hefði trúlega farið af stað á flóði. Við vildum losna við hann úr firðinum þannig hann færi ekki í eldiskvíarnar. Það hefði verið vont,“ segir Óskar Ragnarsson, starfsmaður Kaldvíkur sem tók þátt í aðgerðinni í gær.
Þjónustubátur frá Kaldvík var notaður til að draga hvalinn úr Berufirði. Farið var út fyrir Starmýrarfjörur þar sem reynt var að sökkva honum öðru sinni. Þar var hins vegar orðið verra í sjóinn vegna veðurs þannig aðgerðir gengu erfiðlega. Hvalurinn sást þó ekki í morgun þegar horft var eftir honum.
Mynd: Aðsend