Skip to main content

Ágætur árangur „Hrúta“ ME í Forritunarkeppni framhaldsskólanna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. mar 2025 12:02Uppfært 11. mar 2025 09:03

Þrátt fyrir að hafa einungis lokið einum einasta áfanga í forritunarfræðum við Menntaskólann á Egilsstöðum var árangur liðs Hrúta sem þátt tók fyrsta sinni fyrir hönd skólans í Forritunarkeppni framhaldsskólanna um helgina aldeilis ágætur.

Liðið endaði í ellefta sæti í Delta-keppnishluta keppninnar en henni er skipt niður í þrjá hluta eftir reynslu og þekkingu keppenda. Það í samkeppni við 36 önnur lið framhaldsskóla í þeirri deildinni víðs vegar af að landinu og í allra fyrsta skipti sem lið ME tekur þátt er hreint ágætur árangur að mati Viktors Sigbjörns Víðissonar, verkefnastjóra við uppbyggingu háskólanáms á Austurlandi.

Keppnin tókst að öllu leyti framúrskarandi vel en það er Háskólinn í Reykjavík sem haldið hefur utan um keppni þessa um árabil og árlega fjölgar liðunum og keppendum. Í heild að þessu sinni voru liðin 61 talsins og í þeim 135 einstaklingar.

„Hrútalið“ Menntaskólans tók þátt gegnum netið og það í læstri stofu í skólanum. Keppendurnir voru þeir Auðun Lárusson Snædal og Magnús Gunnar Sigurhansson. Árangurinn hreint ekki dapur með tilliti til að aldrei áður hefur ME verið með lið í þessari keppni. Mynd Aðsend