Ágangur á gróður vandamál við Hengifoss
Spýta þarf í lófa hvað varðar merkingar á gönguleiðinni að Hengifossi og jafnframt koma alfarið í veg fyrir frekari ágang á gróður á svæðinu samkvæmt niðurstöðum sem landverðir hafa skilað af sér eftir sumarið.
Líkt og víðar á Austurlandi var metaðsókn að Hengifossi liðið sumar og líkt og við Hafnarhólma og Stuðlagil reyndist aukningin milli ára vel rúm 20 prósent. Alls börðu fossinn augum 67.458 einstaklingar yfir júní, júlí og ágústmánuði eða rúmlega 22 þúsund manns í hverjum mánuði. Fyrra met yfir sama tímabil voru um 55 þúsund manns.
Þó unnið hafi verið töluvert í lagfæringum á stígum síðustu ár og meðal annars settar niður nýjar göngubrýr á leiðinni þarf að gera betur. Setja þarf upp staura og bönd á hluta nýju gönguleiðarinnar auk þess að afmarka gamla stíginn. Þá er mælt til þess að skipulagðir verði útsýnisstaðir á nýja stígnum utan við Hengifossgilið. Merkingar á leiðinni margar orðnar úreltar og þarfnast endurnýjunar sem kann að skýra marga villustíga sem enn eru gengnir.
Tvær myndir sem Rán Finnsdóttir tók í sumar ofarlega á stígnum að Hengifossi. Mat landvarða þar er að gera þarf töluvert betur að merkja og stika en gert hefur verið.