Skip to main content

Áhersla á að hlúa að starfsfólkinu í Grindavík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2023 12:19Uppfært 13. nóv 2023 13:00

Fiskvinnsla á vegum Vísis í Grindavík, dótturfélags Síldarvinnslunnar, hefur stöðvast. Unnið er að því að tryggja verðmæti birgða eftir sem kostur er og hlúa að starfsfólki.


Þetta kemur fram í tilkynningu frá Síldarvinnslunni send var til Kauphallarinnar í morgun. Síldarvinnslan keypti Vísi í júlí í fyrra. Sem kunnugt er var Grindavík rýmd vegna jarðhræringa á föstudagskvöld og er almennt bannað að nálgast bæinn.

Íbúum var í morgun heimilað að fara stuttlega inn á heimili sín í dag til að ná í nauðsynjar. Eins var leyft að fara inn í fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum frá Síldarvinnslunni er verið að vinna að því að bjarga verðmætum frá Grindavík.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar segir að staða mála hafi ekki áhrif á starfsemi útgerðarinnar en fiskvinnslan hafi stöðvast. Unnið sé að því að bregðast við aðstæðum og ákvarðanir teknar í samræmi við þróun mála. Áhersla sé lögð á að hlúa að starfsfólki og halda sambandi við það.

Samkvæmt upplýsingum frá MarineTraffic er ekkert þeirra skipa sem Vísir gerir út staðsett nálægt Grindavík. Eitt þeirra, Daðey, hefur gert út frá Breiðdalsvík að undanförnu.

Fram kemur að undanfarið hafi verið unnið að því áætlunum í samræmi við þær sviðsmyndir sem jarðvísindafólk hafði dregið upp af jarðhræringunum. Þær hafi snúist um tjón á innviðum utan bæjarmarka Grindavíkur en nú sé komin upp önnur og verri staða gagnvart byggðinni en áður var gert ráð fyrir.

Stjórnendur vinna við að bregðast við aðstæðum og munu taka ákvarðanir í samræmi við þróun mála.