Skip to main content

Áhyggjuefni að ekki hafi verið grafin ný jarðgöng síðustu þrjú ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. okt 2023 09:10Uppfært 30. okt 2023 09:15

Engar formlegar framkvæmdir hafa verið við jarðgöng á Íslandi síðan Dýrafjarðargöng opnuð haustið 2020. Þingmenn Norðausturkjördæmis virðast samstíga um að Fjarðarheiðargöng eigi að vera næst á dagskrá en fulltrúar annarra kjördæma virðast ekki jafn sannfærðir.


Þetta kom fram í fyrstu umræðu um samgönguáætlun 2024-38 sem fram fór á Alþingi fyrr í mánuðinum. Þar eru Fjarðarheiðargöng næst í framkvæmd, enda þau einu sem teljast tilbúin til útboðs. Í núgildandi jarðgangaáætlun er göng áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð næst á dagskrá en í þeirri áætlun sem fyrir liggur eru þau töluvert síðar á ferðinni.

Á sama tíma og þingmenn Norðausturkjördæmis virtust ánægðir með að Fjarðarheiðargöngin væru næst þá lýstu þeir vonbrigðum sínum um að seinni hluti hringtengingar Mið-Austurlands væri ekki gerður í beinu framhaldi.

Ástandið í mars sýnir þörfina


Meðal þeirra var Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki, sem vísaði til þess að í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um núverandi áætlun, segði að Fjarðarheiðargöng skiluðu ekki fullum ávinningi nema hin göngin kæmu strax í kjölfarið. Þess vegna væru það vonbrigði að ekki væri lagt upp með verkefnið sem heild, til dæmis í ljósi mikilla lokana í óveðri og snjóflóðahættu á Austfjörðum í lok mars.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti einnig á ástandið í mars og lagði áherslu á að seinni hluti ganganna fengi frekari forgang. Hún sagði áhyggjuefni að ekki hefði verið unnið að jarðgöngum í þrjú ár, þrátt fyrir stefnu Alþingis um að ávallt væru ein jarðgöng í vinnslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, Framsóknarflokki, sagðist fagna því sérstaklega að Fjarðargöng væru efst á jarðgangalistanum. „Ég verð bara að fagna því sérstaklega að við eru með Fjarðarheiðargöng nr. 1 í jarðgangaáætlun. Ég held að sé óhætt að segja við þingmenn í Norðausturkjördæmi komum til með að sameinast um það að berjast fyrir því að svo verði og það verði ekki einhverjar tafir á þeirri framkvæmd.“

Jódís Skúladóttir, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, kvaðst fagna því að sjá fyrir endann á Fjarðarheiðargöngum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði frá því að atvinnuveganefnd hefði í mars farið til Færeyja og skoðað hvernig jarðgangaframkvæmdir þar væru fjármagnaðar. Á því gætu Íslendingar lært.

Þingmenn annarra kjördæma vilja rýna forsendur forgangsröðunar


En þótt Fjarðarheiðargöng séu í jarðgangaáætlun, sem lögð er fram samhliða samgönguáætluninni, þá hefur hvorug áætlunin enn hlotið samþykki þingsins. Að lokinni umræðu var þeim vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem kallar eftir umsögnum. Eftir meðferð hennar fer áætlunin aftur inn í þingið.

Í umræðunum tóku líka til máls þingmenn úr öðrum kjördæmum sem voru gagnrýnni á Fjarðarheiðargöngin. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar úr Reykjaneskjördæmi, spurði hvort forgangsröðun jarðganga byggði á þjóðhagslegu mati. Hún sagði Fjarðarheiðargöngin taka til sín allt fjármagn til jarðganga á næstu árum á sama tíma og henni virtist mikil þörf á jarðgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum með vaxandi starfsemi þar, einkum fiskeldi.

Hún sagðist ekki vera að efna til togstreitu milli kjördæma, heldur aðeins kalla eftir útskýringum. Síðar sagði hún að það væri mögulega erfiðra að fá íbúa annarra landshluta en Austurlands til að sætta sig við forgangsröðunina en það væri þá verkefni þeirra sem samþykktu óbreytta áætlun.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sagðist sammála því að setja þyrfti jarðgöng á Austfjörðum, Vestfjörðum og Tröllaskaga í forgang en bætti við að rýna þyrfti forsendur forgangsröðunarinnar í umhverfis- og samgöngunefnd.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði forgangsröðun jarðganganna almennt byggja á úttekt Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri frá í fyrra. Hringtengingin á Austurlandi var þar undanskilin því hún var komin á áætlun. Sigurður Ingi ítrekaði að Fjarðarheiðargöngin væru þau einu sem tilbúin væru til útboðs, þótt þau kosti bæði tíma og fjármuni.