Skip to main content

Ákærðir fyrir að smygla kókaíni með Norrænu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. júl 2025 12:06Uppfært 09. júl 2025 12:08

Þrír karlmenn, allir komnir vel yfir miðjan aldur, hafa verið ákærðir fyrir að hafa staðið saman að innflutningi þriggja kílóa af kókaíni sem einn þeirra faldi í farangri sínum um borð í Norrænu.


Tveir mannanna eru erlendir ríkisborgarar en sá þriðji með lögheimili hérlendis. Sá yngsti í hópnum er fæddur árið 1969 en hinir tveir 1962 og 1959.

Það var aldursforseti hópsins sem kom með efnin til landsins í byrjun apríl. Þau voru falin í þremur pottum í farangurstösku hans. Í ákærunni kemur ekkert fram um afskipti af honum við komuna til Seyðisfjarðar og hann virðist hafa verið afar rólegur og þolinmóður miðað við að hafa haldið áfram til Reykjavíkur með rútum.

Hann virðist fyrst og fremst hafa verið burðardýr en hann virðist hafa fengið 5.000 evrur eða um 720.000 krónur í sinn hlut. Yngsti maðurinn er sakaður um að skipuleggja smyglið með að setja sig í samband við óþekktan mann á Spáni um að útvega efnin. Þriðji maðurinn var í sendiferðum og útvegaði verkfæri.

Mennirnir hittust í Reykjavík og voru handteknir í bifreið á leið til Akraness þar sem þeir eru taldir hafa ætlað að taka efnin úr pottunum og gera þau klár til sölu.

Síðasta aðgengilega verðkönnun SÁA á vímuefnum er frá í janúar 2023. Miðað við hana er verðmæti kókaínsins tæpar 50 milljónir króna.