Skip to main content

Ákærður fyrir manndráp eftir að hafa týnst í kerfinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. feb 2025 15:12Uppfært 27. feb 2025 15:12

Hvorki geðsvið Landspítala né geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) kannast við að hafa haft það á sinni könnu að sinna eftirfylgni og meðferð Alfreðs Erlings Þórðarsonar eftir að hann var útskrifaður úr nauðungarvistun af geðsviði Landspítala í júní í fyrra. Alfreð Erling er ákærður fyrir tvöfalt manndráp í heimahúsi í Neskaupstað ágúst í fyrra.


Þann 6. júní í fyrra var Alfreð úrskurðaður í allt að 12 vikna nauðungarvistun á geðdeild Landspítalans, í kjölfar atviks um miðjan maí. Hann var útskrifaður tveimur vikum síðar. Morðin voru framin innan þessa 12 vikna tímabils.

Rannsókn Morgunblaðsins og Austurgluggans hefur leitt í ljós að hann var án meðferðar eða eftirfylgni þegar hann framdi morðin. Í geðmati við nauðungarvistunina var hann þó talinn hættulegur sjálfum sér og öðrum.

Samkvæmt heimildum var það skilnings starfsfólks á geðsviði Landspítala að Alfreð Erling hefði verið útskrifaður í hendur geðheilsuteymis HSA sem myndi sjá um eftirfylgni meðferðarinnar. Í viðtali sem Austurglugginn birti í síðustu viku við Sigurlín Hrund Kjartansdóttur, yfirsálfræðing HSA, var farið yfir verklag við útskrift einstaklinga frá Austurlandi af geðdeild.

Senda þarf formlegt erindi


Þar útskýrir hún að formlega þurfi að útskrifa skjólstæðing á milli stofnananna með læknabréfi. Oft sé misbrestur á að það sé sent. Oft sé hins vegar misbrestur á þessu, HSA viti oft hvorki að sjúklingur hafi verið útskrifaður af öðrum stofnunum né innskráður.

„Stundum sendir viðkomandi stofnun rafrænt útskriftarbréf sem fer á heilsugæslu lögheimilis, yfirleitt til yfirlæknis sem fer yfir það. En oft er bara ekkert bréf sent. Þá veit kerfið á svæðinu ekki af því að einstaklingurinn er út­skrifaður,“ sagði Sigurlín í viðtalinu.

„Ef ég sendi sjúkling með sjúkrabíl til Reykjavíkur þá sé ég ekkert um það hvað er gert, hver talar við hann, hvernig matið er fyrr en útskriftarbréfið er sent. Og það klikkar alltof oft,“ sagði Sigurlín í viðtalinu.

Sigurlín sagðist ekki geta tjáð sig um mál einstakra einstaklinga, í þessu tilfelli Alfreðs Erlings. Enn síður þar sem hann var aldrei í þjónustu geðheilsuteymis HSA. Það sést meðal annars á því að geðlæknirinn sem er með samning við HSA og tilheyrir teyminu, Kristinn Tómasson, gerði geðmatið og bar vitni fyrir dómi. Aðkoma hans að málinu á fyrri stigum hefði gert hann vanhæfan til þess.

Margar útgáfur af sjúkrakerfinu í gangi


Alfreð dvaldi á gistiheimili á Reyðarfirði sem honum var útvegað af félagsþjónustunni í Fjarðabyggð eftir hann fór austur, að því er virðist nokkrum vikum eftir útskrift. Að öðru leyti virðist hann hafa verið reiðileysi þar til að voðaverk­inu kom þann 21. ágúst.

„Stundum veit kerfið ekki einu sinni af því að hann er innskrifaður. Við sjáum sjúkragögn frá Sjúkrahúsinu á Akureyri í okkar kerfi en við erum alveg blind gagnvart geðsviði Landspítalans.

„Sjúkrakerfið er svo flókið, það eru margar útgáfur í gangi. Það er verið að reyna að samræma þær og opna þær en í dag sé ég ekki hvort skjólstæðingur frá mér hafi farið t.d. í bráðainnlögn á BUGL og verið útskrifaður tveimur dögum síðar, fyrr en það kemur bréf um það, sem gerist ekki endilega í sömu vikunni,“ sagði Sigurlín.

Að sögn hennar getur sú staða komið upp að einstaklingi sé sleppt út eftir nauðungarvistun án þess að neinn úr kerfinu viti hvert hann fer. Hvorki félagsþjónustan, heilbrigðisstofnun né lögregluyfirvöld. „Þetta verður að laga,“ segir Sigurlín.

„Þegar svo alvarlegt mál er um að ræða, eins og nauðungarvistun þá ber geðdeildin sem sækir um nauðungarvistina skýra ábyrgð á að vera með viðkomandi í eftirfylgni. Ef það á að færa þá ábyrgð þarf að gera það með læknabréfi eða samtali.“

Umfjöllunin er unnin í samvinnu Morgunblaðsins og Austurfréttar.