„Ákveðinn þroski sem færist í tónlistina með aldrinum“

Norðfirðingurinn Guðmundur Höskuldsson heldur útgáfutónleika fyrstu sólóplötu sinnar í Egilsbúð á laugardag. Hann segir þörfina til að semja tónlist alltaf fyrir hendi hjá tónlistarfólki, óháð aldri, þótt áherslan í tónlistinni breytist.

Guðmundur notast við listamannsheitið Dundur en platan heitir Tilvera. Hún kom á streymisveitur í gær en á geisladisk um síðustu helgi.

„Upphaflega átti hún að koma út á vínyl en útgáfuferlið tafðist þannig að nokkurra mánaða bið hefði verið í vínylinn. Það er enn nokkuð af fólki sem enn notar geisladiskana frekar en streymið. Ég nota streymið mest sjálfur en ég kaupi plötur þegar ég fer á tónleika. Mér finnst það vera hluti af því að styrkja listafólkið.“

Með laglínur í fingrunum


Um er að ræða fyrstu sólóplötu Guðmundar sem orðinn er rúmlega sextugur. „Ég gaf út disk með æskuvini mínum árið 2004. Við byrjuðum hljómsveitabrölt okkar árið 1973. Eftir það fórum við sitt í hvora áttina en hittumst aftur um aldamótin og gerðum plötu sem innihélt bara gítar og trommur.

Að undanförnu hef ég hlustað mikið á Chip Taylor. Hann er fæddur 1940 en hætti að spila um 1980. Hann hafði þá mest samið fyrir aðra í 20 ár. Þið þekkið eftir hann „Wild Thing“ og „Ég las það í Samúel“ eða „Síðan eru liðin mörg ár“ með Brimkló.

Hann fór aftur af stað um 1990 fyrir slysni. Hann sat yfir móður sinni á dánarbeði og tók gítarinn með sér til að stytta þeim stundir. Eftir að hún dó stóð hann eftir með fjölda laga og fór aftur að gefa út plötur. Þær eru sennilega orðnar 25 talsins og mér finnst hans bestu hafa komið á síðustu tíu árum.

Sem tónlistarmaður og hljóðfæraleikari öðlastu ákveðinn þroska með aldrinum. Þá fara aðrir hlutir að skipta máli í tónlistinni. Hraðinn minnkar en meiri alúð færist í hverja nótu og tón. Ef þú hefur áhuga á að spila og semja tónlist þá er þörfin alltaf til staðar.

Fljótlega eftir að ég flutti austur í Neskaupstað árið 2006 fór ég að spila með Coney Island Babies. Í fyrrahaust ákvað ég að fara að gera mitt eigið efni. Mér fannst ég tilbúinn að gera eitthvað. Ég var alltaf ákveðinn í að semja fyrir plötu, ég vissi bara ekki hve mikið yrði úr henni. Það voru einhverjar laglínur í fingrunum á manni sem gott var að koma úr kerfinu til að geta snúið sér að næsta verkefni, sem væntanlega önnur plata. Ég á enn helling af efni. Það safnast fljótt upp þegar maður semur á nokkurra vikna fresti. Fyrir þessa völdum við þau lög sem okkur fannst passa best saman í heild.“

Hljómsveitin taldi ekki þörf á söng


Með Guðmundi á plötunni spila Hafsteinn Þórðarson, gítarleikari úr Neskaupstað, Birgir Baldursson, trommuleikari á Eskifirði og Þórir Baldursson, einn besti hljómborðsleikari Íslandssögunnar. „Ég vildi hafa Hammond-orgel á plötunni og hugsaði hver væri besti Hammond-leikari landsins. Ég hugsaði til þeirra Hammond-hátíða sem ég hef farið á. Þegar Þórir var þar er eina skiptið sem ég hef virkilega séð mann og orgel verða að einu.

Þetta átti upphaflega að verða söngplata. Þegar ég var búinn að semja fullt af lögum þá kallaði ég á Hafstein og síðan hina strákana sem vildu meina að það þyrfti enga texta.“

Platan var síðan að mestu leyti tekin upp í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði með staðarhaldarann Vinny Vamos sem upptökumann. „Það er æðislegt hljóðver. Þar er mikið úrval tækja, breitt val míkrófóna og gott andrúmsloft hjá Vinny.“

Guðmundur notaði einnig hljóðfæri sem hann hefur smíðað sjálfur en hann titlar sig sem gítarsmið í símaskrá. „Ég notaði tvo gítara, mest þann sem ég smíðaði sjálfur en einnig annan sem ég hef hátt í 40 ár. Ég var líka mikið til með magnara sem ég smíðaði.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 á laugardagskvöld í Egilsbúð. Guðmundur segir að síðan eigi eftir að koma í ljós hvernig plötunni verði fylgt eftir. Það hafi áhrif að hljómsveitin sé ekki öll á sama landshorni en hugur sé á að halda fleiri tónleika.

Mynd: Jón Knútur Ásmundsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.