Skip to main content

Alcoa Fjarðaál fellir niður skaðabótamál gegn skipafélögunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. maí 2025 13:31Uppfært 27. maí 2025 13:32

Alcoa Fjarðaál hefur fallið frá skaðabótamáli upp á milljarði króna sem höfðað var gegn Samskipum og Eimskip í kjölfar samkeppnisbrota þeirra. Álfyrirtækið áskilur sér þó rétt til að taka þráðinn upp aftur eftir því hvernig öðrum dómsmálum vegna brotanna vindur fram.


Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í lok ágúst 2023 að Samskip hefði brotið gegn samkeppnislögum en Eimskip hafði áður gert sátt í málinu. Eftirlitið taldi félögin hafa framið eitt grófasta brotið þegar þau knúðu fram 131% hækkun á samningi Samskipa við Alcoa Fjarðaál haustið 2008.

Í kjölfar úrskurðarins höfðaði Alcoa skaðabótamál á hendur félögunum. Krafan hljóðaði upp á þrjá milljarða króna auk dráttarvaxta. Til stóð að málið yrði flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Af því verður ekki þar sem Alcoa Fjarðaál hefur ákveðið að falla frá málinu, að minnsta kosti að sinni. Í tilkynningu félagsins segir að sú ákvörðun hafi verið tekin í ljósi úrskurðar Áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Samskipa gegn Samkeppniseftirlitinu. Áfrýjunarnefndin taldi Samskip hafa brotið af sér en lækkaði sekt félagsins úr 4,2 milljörðum króna í 2,5.

Í tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar er því haldið fram að krafa Alcoa hafi verið tilefnislaus og ætlað fjártjón ekki stutt haldbærum gögnum. Eimskip vísar til úttektar Hagrannsókna fyrir félagið sem taldi það mikla vankanta á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica til Alcoa að það væri ónothæft til að meta tjónið.

Í tilkynningu Alcoa er minnt á að Samkeppniseftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að Samskip hefðu með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga og EEE-samningsins. Þá hefði Eimskip gert sátt við eftirlitið, greitt 1,5 milljarða í sekt, viðurkennt brot og skuldbundið sig til aðgerða. Í þeirri sátt hefði viðskipti við Alcoa ekki verið undanskilin.

Þar segir ennfremur að Alcoa sé reiðubúið að endurmeta lagalega stöðu sína eftir því sem málinu vindur fram fyrir íslenskum dómstólum, en Samskip hafa fengið heimild til að áfrýja máli sínu til Hæstaréttar.