Alcoa Fjarðaál hlaut Forvarnarverðlaun VÍS
Fyrirtækið Alcoa-Fjarðaál á Reyðarfirði hlaut í gær Forvarnarverðlaun VÍS fyrir að leggja ítrustu áherslu á öryggis- og forvarnarmál innan veggja fyrirtækisins.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Forvarnarráðstefnu VÍS sem fram fór í Hörpu í gær en jafnan eru tvö fyrirtæki verðlaunuð á þeirri ráðstefnu ár hvert. Annars vegar stórfyrirtæki með fleiri en hundrað starfsmenn og millistór fyrirtæki með færri en hundrað starfsmenn. Var það fyrirtækið Sæplast á Dalvík sem fékk síðarnefndu verðlaunin.
Í umsögn dómnefndar segir að: „Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði er eitt nútímalegasta og tæknivæddasta álver í heimi þar sem ítrasta öryggis er gætt í öllum þáttum starfseminnar. Áhættumat og ítarlegar greiningar eru undirstaða öryggis þar sem hver vakt byrjar á örfundi þar sem farið er yfir stöðu verka og öryggisatriði rýnd. Öflugt eldvarnaeftirlit er til staðar og fá 30 manns reglubundna þjálfun hjá Slökkviliði Fjarðarbyggðar. Ferlar, skipulag og gagnavinnsla styður allt við öfluga öryggismenningu hjá Alcoa Fjarðaáli.“
Fulltrúar Alcoa-Fjarðaáls, Sæplasts og VÍS eftir að viðurkenningarnar voru afhentar í gær. Mynd VÍS/Sigurjón Ragnar