Skip to main content

Aldrei fleiri gist á Austurlandi í maímánuði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jún 2023 15:18Uppfært 30. jún 2023 15:20

Aldrei áður hafa jafn margir ferðamenn gist á hótelum og gististöðum hér á Austurlandi í maímánuði samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Aukningin er rúm 40% umfram maí í fyrra sem var fyrri metmánuður hér um slóðir.

Hagstofan sendi í dag frá sér tölur yfir gistinætur á landsvísu síðasta maí og þar kemur í ljós að aldrei áður hafa skráðar gistinætur verið fleiri í maí en þetta árið. Þær voru alls tæplega 685 þúsund talsins í landinu öllu sem reynist vera 23% aukning frá síðasta ári og 13% aukning frá metárinu 2018.

Heildar herbergjafjöldi á hótelum og gististöðum á Austurlandi stóð í stað á milli ára en alls eru 414 herbergi til leigu á hótelum eða gistihúsum hér í fjórðungnum. Nýting þeirra herbergja jókst þó frá maí í fyrra um 16%.

Hagstofan mælir einnig fjölda fólks sem nýtir sér annars konar gistingu eins og gegnum íbúðaleigur, heimahúsum eða á tjaldsvæðum en þær tölur eru ekki greindar niður eftir landssvæðum að sinni. Alls voru þær skráðar um 140 þúsund talsins.